Almennt gengur kornrækt vel á Íslandi, sérstaklega á Suðurlandi. Veðurfar er breytilegt milli ára og sum héruð geta lent í því að korn nái ekki að þroskast eins vel og ætlast er til. Kornbændur standa þá frammi fyrir vanda, hvort þeir ættu að henda hundruðum tonna af hálfþroskuðu byggi eða finna einhverja notkunarmöguleika. Eða kannski hætta kornrækt eftir eitt slæmt ár á eftir góðum árum. Rannsóknir á íslensku korni hafa beinst að vel þroskuðu korni. Í þessu Báruverkefni er ætlunin að svara því hvort hægt sé að gera verðmæti úr korni sem hefur ekki náð fullum þroska. Hér er verið að svara grundvallarspurningum fyrir kornbændur sem lenda í áföllum.
Léttbygg er nýyrði sem verður notað fyrir bygg sem hefur ekki náð fullum þroska og hefur því ekki fulla fyllingu með sterkju. Í verkefninu verður efnainnihald léttbyggs frá Jaðri í Borgarfirði rannsakað og borið saman við efnainnihald fullþroskaðs byggs. Eiginleikar léttbyggs verða metnir með tilliti til notkunar í bökunariðnaði og sem trefjaefnagjafi í matvælaiðnaði. Samkvæmt könnunum á mataræði er þörf á að auka trefjaefnaneyslu Íslendinga. Á kúabúinu Helgavatni í Borgarfirði verða gerðar tilraunir með íblöndun léttbyggs í fóður mjólkurkúa og mat verður lagt á magn mjólkur.

