Fréttir

Stofngerð laxa í Laxá í Aðaldal breyst talsvert í gegnum árin

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Laxá í Aðaldal hefur löngum verið kölluð drottning laxveiðiáa á Íslandi. Áin er þekkt fyrir einstaklega stóra og fallega laxa. Laxastofnar í Norður Atlandshafi hafa farið hratt minnkandi síðan 1980 og sömu sögu er að segja um laxastofninn í Laxá.

Þrátt fyrir að veiða og sleppa aðferðin hafi verið megin reglan um langan tíma í Laxá hefur stofninn ekki náð að vaxa og veiði hefur raunar verið fremur lítil á undanförnum árum miðað við það sem áður var. Litlir stofnar lífvera tapa erfðabreytileika hratt en erfðabreytileiki er forsenda þess að stofn sé sjálfbær og geti brugðist við breyttum umhverfisaðstæðum.

Matís hefur gefið út ráðgjafarskýrslu fyrir Landsvirkjun þar sem erfðabreytileiki laxa í Laxá í Aðaldal er skoðaður yfir tímabilið frá 1980 – 2023.

Í ágripi skýrslunnar kemur fram að ljóst er að mat á virkri stofnstærð (æxlunarstofnstærð á ári) hefur minnkað yfir tíma sérstaklega í nýjasta sýninu frá 2023.

Mynd úr skýrslunni sýnir virka æxlunarstofnstærð (Nb) fyrir hvert ár með 95% öryggismörkum fyrir öll sýni.

Þá er ljóst að stofngerð laxa í Laxá hefur breyst, þannig flokkast færri laxar til Laxár nú en áður og að sama skapi eru fleiri laxar greindir í ánni frá öðrum stofnum/ám. Mikil ræktun hefur átt sér stað í Laxá síðan 1984 en hinsvegar er ljóst að uppruni undaneldisfisks er óþekktur. Vísbendingar eru um að ræktun sé að auka skyldleika í stofninum þó svo að nokkur aukning hafi orðið í veiði síðasta ár.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér: Erfðabreytileiki laxa í Laxá

Nánari upplýsingar veitir Davíð Gíslason verkefnastjóri hjá Matís.

IS