Kombucha Iceland
Hjá Matís er starfrækt svokölluð matarsmiðja. Matarsmiðjan er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.
Tveir þeirra frumkvöðla sem unnið hafa að sínum verkefnum í Matarsmiðjunni eru Ragna Björk Guðbrandsdóttir og Manuel Plasencia Gutierrez hjá Kombucha Iceland.
Hjónin Ragna Björk og Manuel stofnuðu fyrirtækið Kombucha Iceland utan um framleiðslu sína á ýmsum afbrigðum kombucha drykkjarins árið 2016. Þau höfðu þá þegar töluverða reynslu af drykkjargerðinni en Manuel, sem er frá Kúbu, hafði verið að prófa sig áfram með gerjun á ýmsum mat og drykk hér á Íslandi, eins og hefð er fyrir á æskuheimili hans í heimalandinu, í allnokkur ár.
Kombucha er í grunninn te sem er gerjað eftir kúnstarinnar reglum. Hellt er upp á te en þau Ragna og Manuel notast við fimm tegundir af lífrænum hágæða telaufum og íslenskt vatn. Við rétt hitaskilyrði og með aðstoð lífræns sykurs hefst gerjunin og hún hrindir af stað ferli sem fyllir drykkinn af fjölbreyttum heilsubætandi efnasamböndum, góðgerlum og vítamínum. Kombucha er því talið afar gott fyrir heilsuna og ekki síst fyrir þarmaflóruna og meltinguna. Drykkurinn er náttúrulega kolsýrður og hefur skemmtilega súr-sætt bragð.
Í framleiðslunni hafa hjónin kappkostað að hafa sem allra flest innihaldsefni drykkjarins fersk, lífræn og helst íslensk ef kostur er. Kombucha Iceland er fáanlegt í fjölmörgum bragðtegundum og má þar til að mynda nefna krækiberjabragð en fjölskyldan fer jafnan saman í Borgarfjörð til að tína berin í drykkjarframleiðsluna. Einnig er m.a. hægt að fá rauðrófu-, glóaldin-, rabarbara- og vanillubragð auk original bragðtegundarinnar sem á marga aðdáendur. Kombucha er heilsueflandi og frískandi drykkur sem má njóta við flest tilefni. Hann inniheldur koffín úr teinu og kolsýru vegna gerjunarinnar og umsagnaraðilar hafa sagt að hann henti vel til að slá á sykurþörf og sem staðgengill fyrir gosdrykki eða áfengi.
Nánari upplýsingar um Kombucha Iceland má meðal annars finna á vefsíðu þeirra, https://kubalubra.is/.