Tengiliður

Aðalheiður Ólafsdóttir

Skynmatsstjóri

adalheiduro@matis.is

Hvað finnst fólki um vöruna þína?

Skynmat er kerfisbundið mat á lykt, bragði, útliti og áferð matvæla. Í skynmati eru skynfæri mannsins, þ.e. sjón-, lyktar-, bragð-, heyrnar- og snertiskyn notuð til að meta gæði matvæla. Skynmat í íslenskum matvælaiðnaði hefur verið stundað á skipulagðan hátt; einkum sem þáttur í gæðaeftirliti. Fiskiðnaður, kjötvinnsla og mjólkuriðnaður hafa mest nýtt þessar aðferðir. Skynmat í íslenskum fiskiðnaði á sér ríka hefð. Áður fyrr var allur fiskur metinn með tilliti til ferskleika og hann verðlagður eftir því.

Nauðsynlegur þáttur í gæðastýringu

Þörfin fyrir skipulagt skynmat á hráefni við hráefniskaup og framleiðslu og mat á afurðum fer vaxandi bæði vegna krafna kaupenda erlendis og ekki síður vegna þess að matvælafyrirtæki taka upp gæðastýringu. Skipulegar aðferðir við skynmat og skráningar á niðurstöðum skynmats á hráefni, framleiðslu og afurðum eru nauðsynlegur þáttur í gæðastýringu.

Mjólk og mjólkurafurðir eru viðkvæm vara og notkun skynmats í gæðaeftirliti þar á sér ríka hefð. Allt kjöt í sláturhúsum er metið í gæðaflokka eftir byggingarlagi, holdfyllingu og fitu. Fyrir hverja kjöttegund eru sérreglur um gæðamat. Þetta mat er fyrst og fremst sjón- og snertimat kjötmatsmannsins þó hann hafi tæki eins og fitumæli til að styðjast við.

Mikilvægur þáttur í starfsemi Matís

Skynmat er mikilvægur þáttur í starfsemi Matís og er það einkum notað í gæðaeftirliti og við vöruþróun hjá íslenskum matvælafyrirtækjum. Matís hefur í mörg ár aðstoðað fyrirtæki við að koma upp skynmati, veitt ráðgjöf í skynmati og framkvæmt geymsluþolsrannsóknir í þeim tilfellum þar sem skynmat er mjög veigamikill þáttur.

Skynmat hefur verið notað í margvíslegum rannsóknarverkefnum, bæði innlendum og erlendum. Starfsfólk Matís hefur annast bóklega og verklega kennslu í skynmati við matvælafræðiskor Háskóla Íslands og við sjávarútvegsbraut auðlindadeildar Háskólans á Akureyri. Einnig hefur starfsfólk Matís kennt skynmat við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna frá 1998. Þá hefur Matís haldið margvísleg námskeið í skynmati fyrir starfsfólk fiskvinnslufyrirtækja og annarra matvælafyrirtækja.

Fullkomin aðstaða hjá Matís

Á Matís er mjög fullkomin skynmatsaðstaða, með sérstöku skynmatsherbergi með aðskildum básum, fullkominni lýsingu og loftræstingu. Einnig er þar góð aðstaða til að meðhöndla matvæli og undirbúa sýni og nýtist þetta mjög vel til námskeiðahalds og kennslu.

Þróun nýrra aðferða

Á undanförnum árum hefur verið unnið að þróun nýrra skynmatsaðferða, einkum fyrir skynmat á heilum fiski. Sú aðferð sem fiskirannsóknafólk í Evrópu er sammála um að muni henta best við ferskfiskmat er svonefnd gæðastuðulsaðferð QIM. Sú aðferð er mjög hentug til kennslu og þjálfunar og samræmingar á mati og má geta þess að árið 2003 var allt starfsfólk fiskmarkaða hér á landi þjálfað í þessari aðferð.

Matís er samstarfsaðili í QIM-EUROFISH sem vinnur að samræmingu skynmatsaðferða á fiski. Loks tekur Matís einnig þátt í European Sensory Network sem er samstarfsvettvangur háskóla, stofnana og fyrirtækja í Evrópu á sviði skynmats.

IS