Rannsóknasamstarf við menntastofnanir

Tengiliður

Guðjón Þorkelsson

Stefnumótandi sérfræðingur

gudjon.thorkelsson@matis.is

Matís gegnir veigamiklu hlutverki við að tengja saman menntastofnanir og vísindarannsóknir við atvinnulífið. Þannig verða til leiðandi starfsmenn og ný þekking hjá fyrirtækjunum í landinu.

Nemendur á meistara- og doktorsnámsstigi hljóta menntun og þjálfun á sviði matvælarannsókna og nýsköpunar hjá Matís og eru verkefnin unnin í tengslum við ýmis fyrirtæki. Nemendur koma frá Íslandi og fjölda annarra landa (t.d. Frakklandi, Færeyjum, Danmörku, Þýskalandi, Portúgal, Bretlandi, Víetnam og Indónesíu) til að vinna að doktors- og meistaranámsverkefnum hjá Matís.

Flestir nemanna í meistaranámi voru við Háskóla Íslands í greinum tengdum sjávarútvegs- og landbúnaði, en einnig í matvælafræði og verkfræðigreinum. Öll verkefni meistara- og doktorsnema eru unnin í samstarfi við fyrirtæki, háskóla og rannsóknastofnanir.

Matís er samstarfsaðili um kennslu í UNESCO GRÓ Sjávarútvegsskóli þar sem áhersla er lögð á hagnýta þekkingu. Matís leggur þannig sitt af mörkum til þróunarhjálpar.

Dæmi um verkefni tengd sjávarútveginum eru t.d. verkefni sem miða að því að þróa nýtt og betra fiskeldisfóður, greina hringorma og dreifingu þeirra, gera endurbætur á fiskmjölsferlum, þróa þurrkunarferli fiskidufts, vinna að frekari þróun og nýtingu á verðmætum afurðum unnum úr þorskhausum, kanna áhrif mismunandi reykingaraðferða á myndun fjölhringja kolvetnis (PAH) í reyktum makríl, rannsaka gæði og stöðugleika karfaflaka við mismunandi aðstæður í frystgeymslum, greina hráefni ísfisktogara með tilliti til vinnslueiginleika (líkanagerð), þróa kæliferla og bæta flutningatækni og líkanagerð.

Dæmi um verkefni sem tengjast landbúnaði er að nýta mysu til víngerðar, þróa skyrduft í skyndidrykki og vinna mjólkurís. Einnig verkefni sem miða að því að þróa afurðir og markað fyrir hrossakjöt, kanna áhrif kælingar og raförvunar á gæði nauta- og svínakjöts, vinna poppað bygg og nota í morgunkorn og þróun á vörum fyrir
vannært eldra fólk.

IS