Rannsóknir og nýsköpun

Verðmætasköpun og nýsköpun eru lykilorðin

Nýsköpun er mikilvægt fyrsta skref í að þekking verði að vöru og verðmætum. Tækifærin á Íslandi felast í að hagnýta hreina náttúru með sjálfbærum hætti til að búa til heilnæm matvæli með jákvæða eiginleika. Verðmætasköpun og nýsköpun eru lykilatriði í því.

Hjá Matís er lögð áhersla á hagnýtingu og markaðshugsun í öllum verkefnum og starfsemi fyrirtækisins því skjót útbreiðsla og hagnýting þekkingar er ekki síður mikilvæg en grunnrannsóknirnar sjálfar þegar koma á vörum á markað.

Mikil tækifæri liggja í því fyrir Matís að koma afrakstri rannsókna og þróunarverkefna í framkvæmd og á markað en slíkt leiðir til aukinnar verðmætasköpunar fyrir íslenskar atvinnugreinar og til hagsældar fyrir almenning á Íslandi.

Verðmætasköpun er því lykilorð í öllu starfi Matís hvort sem það er í samstarfi við aðila innanlands eða erlendis. Hér má sjá örfá dæmi um verkefni sem Matís hefur átt hlutverki að gegna og skilað hafa nú þegar verðmætum til handa þeirra aðila sem að verefnunum komu, hvort sem horft er til Matís sem fyrirtækis, starfsmanna þess, viðskiptavina eða eigenda, þ.e. íslenska ríkisins.

Nýsköpun og verðmætasköpun lykilinn að því að skapa fleiri og betri störf

Tækifærin á Íslandi felast í að hagnýta hreina náttúru, með sjálfbærni að leiðarljósi, til að búa til heilnæm matvæli með jákvæða eiginleika. Verðmætasköpun er lykillinn að því. Markmið Matís er að auka verðmæti þess sem landið og miðin gefa af sér og beita til þess þekkingu.

Sókn í sjávarútvegi

Matís á mikið og farsælt samstarf við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Fyrirtækið er inni á gólfi í vinnslunum og um borð í skipunum. Fyrirtækin skynja að starfsmenn Matís búa yfir þekkingu sem þau geta nýtt og vilja nýta. Það er t.d. hægt að nýta slóg sem til skamms tíma hefur verið hent í sjóinn. Ef það kemur nógu ferskt í land má draga úr því lífefni sem nýta má í lyfjagerð, fitusýrur og áburð.

Makríllinn er fyrirmyndar dæmi

Annað dæmi er makríllinn sem fór mest til bræðslu þegar Íslendingar hófu að veiða þessa tegund. Einungis ári síðar var vinnslan mest til manneldis og fór þá tilbúin á markað á sama verði og gamalreyndar makrílþjóðir eins og Norðmenn fengu. Þetta þótti ótrúlegur árangur. Aukin vinnsla uppsjávarfisks felur í sér gríðarleg tækifæri. Aukning uppsjávarafla um 1% í neytendavöru myndi þýða 2 milljarða króna aukningu útflutningstekna. Það er engin tilviljun að Íslendingar ná mun meiri verðmætum úr hverju veiddu þorskkílói á markaði en Norðmenn. Það byggir á virðiskeðju sem tengir saman rannsóknir á geymsluaðferðum, vinnslu og náin tengsl við markaði.

Getum enn bætt okkur

Þrátt fyrir góðan árangur er langt í land að allar afurðir þorsksins séu nýttar til fulls – tækifærin eru til staðar til að gera enn betur. Hægt er að skapa fleiri og betri störf með bættri nýtingu hráefnis og sókn á kröfuharða markaði með hreint umhverfi og jákvæð heilsuáhrif að leiðarljósi.

Vetrarhveiti, repja og eldgos

Matís tekur einnig þátt í verkefnum sem tengjast landbúnaði. Svokallað vetrarhveiti sem sett er niður að hausti, spírar fyrir veturinn og lifir hann af ef allt gengur upp, er dæmi um það en til þessa hefur hveitirækt ekki átt upp á pallborðið á Íslandi. Einnig hefur Matís unnið að verkefnum sem snúa að ræktun á repju og byggi. Innlent fóður er afar mikilvægt fyrir búfjárræktina. Það er hópur bænda sem lítur á svona verkefni sem klár viðskiptatækifæri. Kornverð hefur hækkað og væntanlega heldur sú þróun áfram.

Engin hugmynd of vitlaus

Matís hefur aðstoðað marga frumkvöðla við að komast af stað með sinn rekstur. Það er þó ekki víst að allt takist. En þónokkur sprotafyrirtæki lifa góðu lífi í dag. Einnig eru starfsmennirnir sjálfir hvattir til að koma með hugmyndir um nýjar vörur eða þjónustu. Allar tillögur fá umfjöllun og eru metnar og engin hugmynd þykir of vitlaus til að vera afskrifuð án skoðunar.

Vilt þú vinna með okkur í rannsóknum?