Hraðvirkar og hagkvæmar tegundagreiningar í unnum matvælum með hjálp DNA raðgreininga (DNA Complex)

Heiti verkefnis: Hraðvirkar og hagkvæmar tegundagreiningar í unnum matvælum með hjálp DNA raðgreininga (DNA Complex)

Samstarfsaðilar: Analytics Engines, AZTI, Colruyt (coordinator), Colruyt Group Services, Matís

Rannsóknasjóður: UE, EIT Food, KAVA, Innovation Programme

Upphafsár: 2021

Tengiliður

Sæmundur Sveinsson

Fagstjóri

saemundurs@matis.is

Unnar matvörur eru berskjaldaður fyrir matvælasvindli. Erlendis hefur komist upp um mörg tilvik þar sem slíkar vörur hafa verið ranglega merktar. Oft á tíðum hefur vantað  merkingar um tilteknar fisk- og dýrategundir á innihaldslýsingu vörunnar. Auðvitað getur alltaf verið um mistök að ræða af hálfu framleiðenda en engu að síður er tegundasvindl í matvælaframleiðslu gjarnan vísvitandi, þar sem dýru hráefni er skipt út fyrir ódýrari vöru.

Tap á trausti neytenda getur verið mjög dýrkeypt fyrir fyrirtæki í matvælaframleiðslu og smávöruverslanir. Ef upp kemst um tegundasvindl í matvælaframleiðslu getur það haft mikið tjón í för með sér fyrir orðspor fyrirtækjanna og getur minnkað umsvif viðskipta sem hefur að lokum neikvæð áhrif á samkeppnishæfni greinarinnar í heild.

Hefðbundnar greiningaraðferðir á innihaldsefnum í unnum matvælum eru flestar flóknar í framkvæmd og hægvirkar. Nýlegar og afkastamiklar aðferðir í raðgreiningu erfðaefnis (DNA) eru margar mjög kostnaðasamar og innleiðing þeirra felur í sér háan fjárfestingarkostnað, bæði í tækjabúnaði og þjálfun starfsfólks.

Verkefnið DNA Complex miðar að þróun aðferða sem byggja á notkun Nanopore raðgreiningartækni til hraðvirkra og hagkvæmra greininga á innihaldsefnum unninna matvæla. Verkefnið nýtir sér MinION raðgreini, frá fyrirtækinu Oxford Nanopore,  til þróunar á áreiðanlegum, hraðvirkum og hagkvæmum greiningum innihaldsefna í unnum matvörum með DNA raðgreiningu. MinION er lítill og meðfærilegur DNA raðgreinir og vonir standa til að þetta verkefni muni skila af sér hagkvæmri aðferð til greiningar innihaldsefna í unnum matvælum. Tækið er ódýrt og einfalt í notkun og markmiðið er að þjálfa starfsfólk Belgískar verslanakeðju í notkun tækisins.

Væntanlegar niðurstöður og áhrif verkefnisins:

  • Tíð og skilvirk greiningaraðferð fyrir innihaldsefni í unnum matvælum. Niðurstöður úr greiningum munu berast innan sólarhrings, en í dag tekur allt upp í sjö daga að fá niðurstöður.
  • Notkun aðferðarinnar í smásöluumhverfi.
  • Aukið gagnsæi í virðiskeðju matvælaframleiðslu.
  • Aukið  traust neytenda á matvælageiranum með því að fækka innköllunum á matvörum í verslunum.