Blink: Kerfi þróað til að greina uppruna nautakjöts

Heiti verkefnis: BLINK

Samstarfsaðilar: ABP Beef (UK), Agrimetrics (UK), AIA (Italy)

Rannsóknasjóður: EIT Food

Upphafsár: 2020

Tengiliður

Sæmundur Sveinsson

Fagstjóri

saemundurs@matis.is

Markmið BLINK er að þróa rekjanleikakerfi út frá erfðamörkum í nautgripum. Þetta kerfi myndi gera neytendum kleift að staðfesta uppruna nautakjöts með því að rekja það til einstaka nautgripa út frá erfðagreiningum einum saman.

Matís vinnur að þessu alþjóðlegt rannsóknaverkefni sem er fjármagnað að fullu af evrópska samkeppnissjóðnum EIT Food. „Verkefnið nefnist BLINK, en markmið þess er að þróa nýtt rekjanleikakerfi fyrir nautakjöt. Aðferðin byggir á þeim miklu framförum sem orðið hafa undanfarinn áratug í erfðagreiningartækni og er sambærileg við aðferðir sem nýttar verða í erfðamengjaúrvali í íslenska kúakyninu sem stefnt er á að innleiða hér á landi á næstu árum. 

Hugmyndin bak við aðferðafræðina felst í því, að við slátrun nautgrips verði lífsýni, til dæmis hársýni eða vefjasýni, tekið af gripnum. Sýnið er síðan sent til rannsóknastofu þar sem erfðaefni er einangrað og þúsundir erfðamarka greind í hverjum einasta grip. Þessar erfðaupplýsingar eru í framhaldinu nýttar til að útbúa einstakt „strikamerki“ fyrir hvern einasta nautgrip sem fer í gegnum tiltekið sláturhús. Erfðafræðilegt strikamerki hefur þá kosti umfram hefðbundin strikamerki, sem allir kannast við úr matvörubúðinni, að það fylgir kjötinu hvert sem það fer og ekki er hægt að breyta því á neinn hátt. Fyrrgreindum erfðaupplýsingum, ásamt fylgigögnum, er að lokum komið fyrir í gagnagrunni. Ef grunur vaknar um að svik séu til staðar einhvers staðar í keðjunni frá nautgrip á fæti til kjötbita á diski, er hægt senda sýni af kjötinu í erfðagreiningu og fá úr því skorið hvort uppruni nautakjötsins sé sá sami og umbúðir matvælanna segja til um.

Þetta próf er talsvert frábrugðið hefðbundnum erfðafræðilegum tegundagreiningum. Til að afhjúpa kjötsvindlið í Evrópu var hefðbundinni tegundagreiningu beitt, erfðaefni eingangrað úr kjöti og það greint til tegunda, hvort þetta er hross eða naut.“