Fréttir

Matarsmiðjan

Ástrík Gourmet Poppkorn

Hjá Matís er starfrækt svokölluð matarsmiðja. Matarsmiðjan er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.

Einn þeirra frumkvöðla sem unnið hafa að sínum verkefnum í Matarsmiðjunni er Ásthildur Björgvinsdóttir hjá Ástrík Gourmet Poppkorn.

Ásthildur Björgvinsdóttir stendur að baki vörumerkinu en hún hafði árum saman haft gaman af tilraunum og áskorunum í eldhúsinu. Poppframleiðslan byrjaði í raun í eldhúsinu heima hjá henni þar sem hún prófaði sig áfram og fólk í kringum hana hafði mikinn áhuga á að smakka og fá uppskriftir. Árið 2015 fór hún svo með poppið á matarmarkað þar sem það hlaut afar góðar viðtökur. Eftir það fór hún að skoða möguleikana á því að koma þessu í framleiðslu og sölu og leitaði þá til Matís þar sem hún fékk aðgang að aðstöðu í atvinnueldhúsi, auk leiðbeininga og kennslu.

Ásthildur flytur inn óerfðabreyttar poppbaunir frá Suður-Frakklandi af svokallaðri „mushroom“ tegund sem poppast í stóra bolta. Þeim er velt upp úr karamellu sem er búin til frá grunni af henni sjálfri eða samstarfsfólki. Sú karamella er gerð af kostgæfni eins og karamellur voru gerðar í gamla daga með íslensku smjöri, flögusalti og fleira góðgæti. Grunnuppskriftin að karamellupoppinu hefur haldið sér frá upphafi, sömu góðu hráefnin eru alltaf notuð og engum aukaefnum er bætt við. Framleiðslan krefst mikillar nákvæmni og vandvirkni en það telur Ásthildur einmitt vera lykilinn að velgengninni.

Alls kyns tegundir af poppi eru fáanlegar frá merkinu Ástrík Gourmet Poppkorn og þau eru í raun alltaf að prófa eitthvað nýtt. Sem dæmi má nefna popp með rósmaríni, lakkrís eða kókos. Vinsælasta tegundin er þó karamellupopp með sjávarsalti sem til dæmis má borða eins og það kemur fyrir, setja í og ofan á kökur og bollur á bolludaginn, bera fram með ostum og setja ofan á ís og kaffidrykki. Karamellupopp má líka að para með drykkjum og setja í gjafakörfur. Einnig hefur verið vinsælt að panta stóra skammta af nokkrum bragðtegundum og gera eins konar popp-bar í veislum eða á viðburðum. Poppið er að auki fáanlegt í ýmsum matvöru- og sérvöruverslunum.

Nánari upplýsingar um Ástrík Gourmet Poppkorn má meðal annars finna á vefsíðu fyrirtækisins.

IS