Fréttir

Rannsókn á virkni Omega Cold FFA

Matís hefur hafið rannsókn á virkni Omega Cold lýsi með viðbættum fríum fitusýrum. Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna hvort lýsið hefur áhrif á smitnæmi fólks fyrir veirusýkingum, svo sem kvefi, inflúensu eða COVID, og veikindi sem slíkar sýkingar valda.

Meira um rannsóknina

Lýsið sem algengast er á markaði í dag hefur verið hreinsað af svokölluðum fríum fitusýrum. Áður en farið var að hreinsa lýsi á þennan hátt innihélt það fríar fitusýrur í nokkru magni. Omega Cold lýsið, sem notað er í þessari rannsókn, er hreinsað lýsi líkt og algengast er á markaði í dag en líkist gamla lýsinu að því leyti að það inniheldur fríar fitusýrur (2%). Rannsóknir sem Lipid Pharmaceuticals ehf. lét gera í Bandaríkjunum sýndu að lítið magn þessara fitusýra í tilraunaglösum drap veirur sem valda COVID-19 og kvefi. Þessi rannsókn er fyrsta skrefið í því að kanna hvort  lýsi með fríum fitusýrum geti hindrað framgang þessara veira í fólki. Rannsóknin gengur því út á það að bera saman tvo hópa fólks með tilliti til kvefs og annarra öndunarfærasýkinga, þeirra sem taka Omega Cold lýsið og hinna sem taka jurtaolíu í staðinn. Stefnt er að því að alls taki 400 manns þátt í rannsókninni.

Rannsóknin er á vegum Háskóla Íslands og Lipid Pharmaceuticals ehf. og er styrkt af Tækniþróunarsjóði. Matís heldur utan um framkvæmd rannsóknarinnar. Vísindasiðanefnd hefur veitt leyfi fyrir rannsókninni.

IS