Fréttir

Velheppnuð heimsókn til Mto wa Mbu í Tansaníu

Næring barna bætt með íslenskri næringablöndu og þjálfun kennara við Bandari skólann.

Börn og konur í Afríku eru í mestri hættu vegna vannæringar með alvarlegum afleiðingum. Ein gerð vannæringar stafar af skorti á vítamínum og steinefnum sem eru nauðsynleg fyrir líkamsstarfsemi.

Mikilvægt er að bregðast við þessu og markmið verkefnisins „VAXA aðgerðaráætlun um bætta næringu í Tansaníu“ er að styðja við bætta næringu og menntun um næringu og hreinlæti. Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífs um þróunarsamvinnu styrkir verkefnið.

Crystal Riedemann, VAXA fundar með foreldrum barna við Bandari School

Verkefninu „VAXA aðgerðaráætlun um bætta næringu í Tansaníu“ er stýrt af VAXA Technologies Iceland sem þróað hefur vítamín- og steinefnaríka blöndu úr íslenskri Ultra Spirulina, sem ætlunin er að prófa og nota til að bæta næringarástand barna við Bandari School í Mto wa Mbu. Verkefnið er unnið í samvinnu við Matís sem hefur aðlagað kennsluefni um hreinlæti og næringu að aðstæðum og þörfum umsjónafólks og kennara við Bandari School. Verkefnið er jafnframt unnið í samstarfi við Óskar Örn Óskarsson barnalæknir sem mun fylgjast með áhrifum á heilsu og vellíðan barnanna meðan á verkefninu stendur.

Börn í matsal Bandari School.

Í lok febrúar 2025 heimsóttu samstarfsaðilar frá VAXA Technologies Iceland, Matís og Óskar skólann í Mto wa Mbu með það að markmiði að kynnast betur starfsemi Bandari School og framkvæma mælingar til að meta heilsu og vellíðan barna við skólann á aldrinum 6-12 ára, auk þess að fræða og þjálfa starfsfólk Bandari School um næringu og hreinlæti.

Óskar Örn Óskarsson framkvæmir mælingar

Samstarfsaðili verkefnisins í Tansaníu er The Bandari Project (óhagnaðardrifin samtök) sem þegar vinna að því að rjúfa vítahring fátæktar með því að veita fátækum börnum og konum í Mto wa Mbu, Tansaníu menntunarmöguleika. Nemendur í Bandari School eru börn úr fjölskyldum sem eru hvað verst settar á svæðinu og mjög oft eru máltíðarnar sem börnin fá í skólanum eina næringin sem þau fá. Því skiptir miklu máli að máltíðarnar séu sem næringarríkastar og mikil þörf á verkefni sem þessu.

Hádegismatur í Bandari School

Í samvinnu við foreldra, heilbrigðisstarfsfólk í Mto wa Mbu og starfsfólk Bandari School var heilsa og vellíðan um 150 barna metin, og sex kennarar við skólann fengu fræðslu og þjálfun í miðlun efnis um næringu og hreinlæti.

Margeir Gissurarson, Matís fræðir kennara um næringu og hreinlæti

Greinilegt var að starfsfólk Bandri School sinnti starfinu af miklum metnaði og alúð. Börnin við skólann voru almennt mjög glaðvær og greinilegt að gott traust og samband ríkti milli þeirra og starfsfólks skólans.

IS