Framleiddu örugga hágæðavöru
Matís býður upp á margvíslega þjónustu tengda gæðamálum, allt frá erfða-, örveru- og efnamælingum, til uppsetningar gæðahandbóka og ráðgjafar við innra eftirlit.
Vörumat
Oft þarf að meta eiginleika og gæði hráefnis eða vöru sem er í þróun eða framleiðslu. Mælingar, svo sem á örverum og ýmsum efnum eru valdar eftir þörfum til að tryggja öryggi eða til að meta hvort varan standist kröfur um gæði, næringargildi eða innihaldsefni. Skynmat er notað til að meta eiginleika í lykt, útliti, bragði og áferð vörunnar.
Gölluð vara
Til að greina hvort vara er skemmd eða gölluð er framkvæmt skynmat þar sem frávik frá staðlaðri vöru eru greind. Einnig eru framkvæmdar efnamælingar og/eða örverumælingar eftir þörfum til að skera úr um hvort vara sé skemmd eða gölluð.
Gæðahandbækur
Gæðahandbækur auðvelda fyrirtækjum stýringu á gæðum og öryggi við framleiðslu, meðhöndlun og geymslu hráefna og vara. Þær þarf að aðlaga að starfsemi viðkomandi fyrirtækja og taka breytingum með breyttu verklagi. Matís aðstoðar við uppsetningu gæðahandbóka.
Greining áhættuþátta – HACCP
Matvælafyrirtæki þurfa að koma á fót gæðakerfum sem byggja á HACCP kerfinu, en það kerfi samanstendur af góðum starfsháttum, hættugreiningu og mikilvægum stýristöðum. Það fer eftir eðli matvælafyrirtækja hversu ítarlegt gæðakerfi þeirra þarf að vera. Matís aðstoðar matvælafyrirtæki við uppsetningu á HACCP kerfum og gæðakerfum sem uppfylla opinberar kröfur.
Innra eftirlit
Kröfur um innra eftirlit fara eftir starfsemi og umfangi fyrirtækja. Matís selur þjónustumælingar (efnamælingar, örverumælingar og skynmat), veitir ráðgjöf og framkvæmir úttektir á innra eftirliti fyrirtækja.
Rekjanleiki
Rekjanleiki í virðiskeðju auðveldar gæðastjórnun í framleiðslu, auk þess að nýtast í markaðssetningu vara og auka þannig virði þeirra. Í kjölfar aukinnar vitundar um vörusvik hafa kröfur um rekjanleika á helstu mörkuðum íslenskra vara vaxið. Matís veitir ráðgjöf um uppsetningu kerfa sem auðvelda rekjanleika vara í virðiskeðju þeirra.
Tegundagreining og kynbætur
Matís sannreynir uppruna kjöts, fisks og grænmetis í vörum með erfðagreiningum. Matís býður enn fremur upp á þjónustu til að kanna hvort hrossakjöt finnist í unnum matvörum. Erfðagreiningar eru mikið notaðar til kynbóta í fiskeldi og landbúnaði, t.d. með greiningum á riðugeni í sauðfé. Matís býður uppá foreldragreiningar í nautgripum, hrossum og hundum. Einnig er boðið uppá upprunagreiningu á laxi, t.d. ef vafi leikur á um hvort tiltekinn fiskur sé uppruninn úr laxeldi eða villtum stofni.