Líftækni

Í líftækni er meðal annars unnið að rannsóknunum á lífefnum, lífvirkum efnum og ensímum út frá því markmiði að vinna markaðshæfar afurðir. Íslensk náttúra er lykillinn að öllu rannsóknarstarfi Matís innan líftækninnar.

Lögð áhersla á að finna örverur á hverasvæðum og í hafinu til framleiðslu á virkum og öflugum ensímum sem nýta má í matvæla- og efnaiðnaði. Um er að ræða ensím sem hafa virkni sem ekki þekkist annars staðar og eru þau eftirsótt af framleiðendum víða um heim. 

Efni sem hafa líffræðilega virkni er víða að finna í náttúrunni. Skimað er fyrir virkni þeirra, bæði jákvæðri og neikvæðri. Jákvæða virknin er eftirsótt til framleiðslu á heilsuvörum og til að fyrirbyggja ýmsa kvilla og sjúkdóma. Þar má nefna lækkun blóðþrýstings, viðspyrnu gegn krabbameini, varnir gegn hjarta- og æðasjúkdómum og fleira. Rannsóknir Matís á lífvirkum efnum beinast sér í lagi að hafinu umhverfis landið og því sem það gefur af sér.

Lífvirk efni er að finna í þörungum, aukaafurðum úr fiski og víðar en einnig er tækniþekking Matís nýtt til að vinna lífvirk efni úr lífverum á borð við sæbjúgu og hákarla, svo dæmi séu tekin. Þegar lífvirk efni finnast er samsetning þeirra rannsökuð, tilraunir gerðar á virkninni á dýrum og loks eru fundnar leiðir til að einangra efnin og koma þeim í markaðshæft form.

IS