Líftækni
Líftækni er vinnsla á lífefnum úr lífmassa, frumum eða frumuhlutum. Má þar nefna prótein, sykrur, fitu og annars konar lífrænar sameindir, líf- og lyfjavirk efni. Líftækni er því aðferðafræði sem beita má t.d. við vinnslu matvæla í landbúnaði og sjávarútvegi
Líftæknihópur Matís stuðlar að nýsköpun með uppbyggingu líftækni á Íslandi og hjálpar líftæknifyrirtækjum að hasla sér völl í íslensku atvinnulífi. Hópurinn vinnur að ýmsum rannsókna- og þróunarverkefnum tengdum líftækni auk þess að þjónusta líftækniiðnaðinn á Íslandi. Viðfangsefni líftæknihópsins felast m.a. í nýtingu vannýttra auðlinda og hliðarafurða til að auka verðmætasköpun og draga úr óæskilegum umhverfisáhrifum. Líftæknihópur Matís hefur um árabil stundað hagnýtar rannsóknir á erfðaauðlindum Íslands og hefur verið í farabroddi slíkra rannsókna. Áhersla hefur verið á að finna og markaðssetja ný ensím úr hita- og kuldakærum örverum.
Líftæknihópurinn veitir margvíslega þjónustu t.d. við þróun vinnsluferla og afurða, virknimælingar og sýnagerð. Ennfremur sinnir hópurinn þjónustu tengdri erfðatækni, sbr. klónun og tjáningu gena, og raðgreiningum erfðamengja (genomics, transcriptomics, metagenomics).
Líftæknihópur Matís býr yfir þekkingu í kerfislíffræði og efnaskiptaverkfræði (systems biology, metabolic engineering). Markmið slíkra rannsókna er að þróa frumuverksmiðjur sem framleiða verðmæt efni af ýmsu tagi sbr. lífeldsneyti, lífrænar sýrur og litarefni.
Undanfarin ár hefur líftæknihópur Matís lagt áherslu á sjávarlíftækni sem felur í sér rannsóknir og þróun vinnslu á íslensku sjávarfangi. Matís hefur aflað sér víðtækrar sérfræðiþekkingar á hagnýtingu stórþörunga og smáþörunga. Stórþörungar (þang og þari) eru uppfullir af verðmætum efnivið, t.d. flóknum sykrum. Matís hefur þróað ensím og frumusmiðjur sem umbreyta þangsykrum í ýmis konar efni, allt frá lífeldsneyti í efni sem notuð eru í lyfjaiðnaði og við gerð lífplasts. Mikill áhugi hefur skapast á ræktun smáþörunga hér á landi og hefur Matís um árabil rannsakað og ræktað þörunga úr íslensku umhverfi. Matís aðstoðar fyrirtæki á sviði smáþörungaræktunar við þróun og vinnslu afurða fyrir fæðu og fóður.