Smári’s Volcano Sauce
Hjá Matís er starfrækt svokölluð matarsmiðja. Matarsmiðjan er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.
Einn þeirra frumkvöðla sem unnið hefur að sínum verkefnum í Matarsmiðjunni er Eggert Smári Sigurðsson með Smári‘s Volcano Sauce
Eggert Smári stendur að baki vörumerkinu Smári‘s Volcano Sauce sem framleiðir sterkar sósur til þess að hafa með ýmsum mat. Hann hefur sjálfur dálæti á sterkum sósum en hann komst á bragðið í suðurríkjum Bandaríkjanna þegar hann bjó þar um tíma. Þar um slóðir er vinsælt að borða kjúklingavængi með svokallaðri Hot-Sauce eða sterkri sósu í einhverri útfærslu. Þegar heim til Íslands var komið þótti honum úrvalið á slíkum sósum lítið og ekki nægilega fjölbreytt svo hann hóf að búa þær til sjálfur.
Í nokkur ár prófaði Smári sig áfram með sósugerðina og framleiddi aðallega til neyslu fyrir sjálfan sig, fjölskyldu og vini. Uppskriftirnar þróaði hann sjálfur eftir „bragð-minni“ eins og hann kallar það. Hann mundi eftir ýmsum tegundum af sósum sem hann smakkaði þegar hann var erlendis og reyndi að framkalla rétta bragðið í sínum uppskriftum.
Hráefnið sem notað er í sósurnar er sérpantað erlendis frá en hver og ein sósa er unnin frá grunni úr fersku hráefni. Í sósurnar fara meðal annars jalapeno pipar, grænn chilli pipar, habanero pipar og Carolina Reaper sem er næst sterkasti pipar sem finnst í heiminum.
Fyrr á þessu ári, 2020, fór Smári að selja vörurnar sínar til almennings og eru vörur Smári‘s Volcano Sauce nú fáanlegar á heimasíðu verkefnisins og á uppistands-klúbbnum The Secret Cellar í Reykjavík. Í hefðbundnu árferði þegar staðurinn er opinn er þar einnig hægt að fá kjúklingavængi með sósunum. Vöruúrvalið er í stöðugri þróun en nú er hægt að fá þrjár missterkar sósur sem bera eldfjallanöfnin Askja, Hekla og Katla. Nýverið var tveimur tegundum bætt við og eru það ekta suðræn ranch-sósa sem nefnist Drangjökull annars vegar og gráðostasósan Mýrdalsjökull hins vegar. Algengt er að þessar sósutegundir séu bornar fram með kjúklingavængjum sem baðaðir hafa verið í sterkri sósu og eru þær því góð viðbót við vöruúrvalið.
Nánari upplýsingar um vörurnarmá meðal annars finna á á vefsíðu Smári‘s Volcano Sauce.