Þessa dagana er unnið úr niðurstöðum verkefnisins „Vistferilsgreining umbúða fyrir ferskar fiskafurðir“. Verkefnið var unnið af nemendum í umhverfis- og auðlindafræði í samstarfi við Háskóla Íslands, Matís og Sæplast.
Í verkefninu sem um ræðir var vistferilsgreining gerð fyrir einnota umbúðir ferskra fiskafurða og þær bornar saman við margnota umbúðir. Í vistferilsgreiningunni felst úttekt og mat á umhverfisáhrifum umbúðanna á öllum stigum lífsferils þeirra svo óhætt er að segja að í mörg horn sé að líta og mikilvægt að skoða þau út frá fjölbreyttum sjónarmiðum. Fiskur og fiskafurðir eru fluttar frá Íslandi í miklum mæli á hverjum degi, gjarnan í einnota umbúðum. Umhverfisáhrifin geta því verið umtalsverð og vistferilsgreining umbúða er eitt skref í átt að betrumbótum.
Á vef Háskóla Íslands birtist á dögunum grein um framgang verkefnisins sem byggð var á viðtali við Ólaf Ögmundarson, aðjunkt við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ. Hann er einn þriggja leiðbeinenda sem komu að verkefninu ásamt tveimur nemendum úr umhverfis- og auðlindafræði, þeim Nouraiz Nazar og Heidi Marie Kalvenes. Meðleiðbeinendur Ólafs voru Björn Margeirsson, rannsóknastjóri hjá Sæplasti og dósent í iðnaðar- og vélaverkfræði við Háskóla Íslands og Sæmundur Elíasson, starfsmaður Matís og doktorsnemi við HÍ.
Greinina má lesa í heild sinni á vef Háskóla Íslands hér.
Gert er ráð fyrir áframhaldandi rannsóknum og þróun til þess að bæta flutningaferla og lágmarka umhverfisáhrif vegna þeirra sem byggja má á niðurstöðum þessa samstarfsverkefnis.