Fréttir

Doktorsvörn við HÍ – Samlífsörverur í sjávarsvampinum Halichondria panicea

Tengiliður

Viggó Marteinsson

Fagstjóri

viggo@matis.is

Mánudaginn 27. maí 2019 fer fram doktorsvörn við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Stephen Knobloch doktorsritgerð sína „Samlífsörverur í sjávarsvampinum Halichondria panicea (e. Host-microbe symbiosis in the marine sponge Halichondria panicea).

Andmælendur verða Dr. Detmer Sipkema, dósent í vistfræði sjávarörvera við háskólann í Wageningen í Hollandi og Dr. Ólafur Sigmar Andrésson, prófessor í erfðafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.Umsjónarkennari var Dr. Eva Benediktsdóttir, dósent í örverufræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.


Leiðbeinandi og í doktorsnefnd var Dr. Viggó Þór Marteinsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og faglegur leiðtogi hjá Matís. Í doktorsnefnd var einnig Dr. Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri í fiskeldi og fiskirækt hjá Hafrannsóknastofnun.

Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor og varadeildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni, sem fer fram í stofu 132 í Öskju kl. 13-15.  

Ágrip
Svampar (phylum Porifera) eru taldir ein af elstu núlifandi fylkingum dýraríkisins. Náin tengsl þeirra við örverur gera þá áhugaverða og heppilega til rannsókna á fyrstu gerðum samlífis dýra og örvera og til að auka almennt skilning okkar á þessu varðveitta samspili og virkni þess. Að auki framleiða margir svampar og samlífisörverur þeirra lífvirk efnasambönd sem gera þá áhugaverða fyrir líftækni og lyfjaiðnaðinn.

Í þessari rannsókn var fjölbreytileiki samlífisörvera H. panicea svamps, sem tekin var úr íslensku sjávarumhverfi, skoðaður með merkigenaraðgreiningu, auk raðgreiningar genamengja (metagenome) og erfðamengja (genome) ræktaðra baktería. Sýnt er fram á að H. Panicea, úr íslensku umhverfi, hýsir eina ríkjandi bakteríutegund. Tegundin sem fékk heitið “Candidatus Halicondribacter symbioticus”, er einnig til staðar í öðrum H. panicea svömpum sem rannsakaðir hafa verið frá mismunandi stöðum og óháð árstíðum. Hins vegar eru aðrar sambýlisörverur óskilyrtar og meira bundnar við stað og tíma. Greining á genamengi ríkjandi skilyrtu bakteríunnar sýnir fram á að algeng stýrigen vantar í erfðamengi hennar. Það er í samræmi við hið skilyrta samlífisform en skortur á stýrigenum er algengur í ákveðnum genafjölskyldum tengdum samlífisforminu og vörnum þess. Jafnvel þó að genaklasi fyrir smíði á lífvirka efninu bacteriocin sé til staðar í “Candidatus Halichondribacter symbioticus” virðist sem það komi ekki við sögu við framleiðslu lífvirkra efna eða „secondary metabolites”.
Samlífisörveran „Ca. H. symbioticus“ í sjávarsvampinum H. panicea er heppilegt módel til rannsókna á samspili samlífisörvera og dýra. Niðurstöðurnar úr þessari rannsókn leggja því grunninn að framtíðarrannsóknum á slíku samspili.

Um doktorsefnið
Stephen Knobloch fæddist árið 1987 í Toronto í Kanada. Hann lauk námi í „Applied Sciences “ frá Háskólanum í Bremerhaven í Þýskalandi og hlaut BSc gráðu í sjávartækni (Maritime Technologies), með áherslu í sjávarlíftækni. Hann stundaði framhaldsnám við Háskólann í Rostock í Þýskalandi og útskrifaðist þaðan með meistaragráðu (MSc) í fiskeldi árið 2013.
Árið 2014 hóf hann doktorsnám við Háskóla Íslands sem styrkþegi í Evrópuverkefninu „BluePharmTrain“ á vegum Marie Curie ITN (Innovative Training Networks). Stephen hefur kennt í haustnámskeiðum í meistaranámi við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ frá 2016 til 2018 og er verkefnastjóri AVS-verkefnisins „FishGutHealth“ frá árinu 2017.

Stephen býr í Reykjavík með konu sinni Rebeccu og tveimur börnum, sem eru Sascha fæddur 2014 og Nora fædd 2017, bæði á Íslandi.

Sjá einnig á vef Háskóla Íslands.

IS