Fréttir

Matvælasvik og sjávarafurðir

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Vörusvik í viðskiptum með matvæli er stórt alþjóðlegt vandamál og eru sjávarafurðir meðal þeirra matvæla sem mest er svindlað með. Rannsóknir benda meðal annars til þess að tegundasvik eigi sér stað með um þriðjung sjávarafurða sem seld eru í mörgum af okkar helstu viðskiptalöndum. Það er því ljóst að hér er um að ræða mikið hagsmunamál fyrir íslenska framleiðendur þar sem íslenskt sjávarfang á í samkeppni við „svikin matvæli“, auk þess sem „svikin matvæli“ eru hugsanlega seld sem íslensk framleiðsla.

Fimmta ráðstefnan í tengslum við verkefnið FoodIntegrity var haldin í Nantes í Frakklandi um miðjan nóvember síðastliðinn. Á ráðstefnunni voru kynntar nýjustu rannsóknir og lausnir til að takast á við matvælasvik. Þátttakendur voru rúmlega 300 talsins, frá 40 löndum. Dagskráin samanstóð af 57 kynningum, tveimur vinnustofum og einum umræðufundi.

Matís er þátttakandi í FoodIntegrity verkefninu og í þeim hluta ráðstefnunnar sem snéri að matvælasvikum í tengslum við sjávarafurðir var Matís í lykilhlutverki. Þar var skoðað sérstaklega af hvaða toga slík svik eru helst, hvernig svikin fara fram, hversu mikil þau eru og hvernig má greina þau og koma upp um þau.

Ljóst er að svik með sjávarfang eru stórt vandamál, en rannsóknir hafa leitt í ljós að tegundasvindl með sjávarafurðir er allt að 30%. Það telst einnig til matvælasvika þegar fiskur er seldur undir fölsku flaggi, þar með talið afli frá sjóræningjaveiðum, ef nauðungavinna er stunduð við framleiðsluna og þar sem hreinlætiskröfum/matvælaöryggis er ekki gætt.

Mikið hagsmunamál fyrir Ísland

Matvælasvik í sjávarafurðum er mikið hagsmunamál fyrir íslenska framleiðendur þar sem íslensk framleiðsla á í samkeppni við „svikin matvæli“ og auk þess eru „svikin matvæli“ hugsanlega seld sem íslensk framleiðsla.

Í tengslum við FoodIntegrity verkefnið var framkvæmd könnun víðsvegar um Evrópu þar sem farið var í fjölda veitingahúsa og sýni tekin til tegundagreiningar, með erfðagreiningu. Niðurstöðurnar komu nokkuð á óvart, en íslensku veitingastaðir sem lentu í úrtakinu komu ekki vel út. Niðurstöður þessarar könnunar má sjá hér.

FoodIntegrity verkefninu er nú lokið og mun afrakstur verkefnisins skipta sköpum í að takast á við matvælasvindl í framtíðinni. Margar þjóðir innan ESB hafa tekið málið föstum tökum og hafa komið á fót eftirlitseiningum sem einbeita sér að baraáttunni gegn svikum í matvælageirum. Eitt helsta framlag FoodIntegrity verkefnisins í þeirri baráttu eru gagnagrunnar þar sem hægt er að fá upplýsingar um matvælasvindl og hvaða tól og tæki eru til staðar til að koma upp um slík svik. Auk þess er búið að gefa út sérstaka handbók og smáforrit.

FoodIntegrity verkefnið er gott dæmi um það hvernig alþjóðlegt rannsóknarsamstarf, sem Matís er hluti af, hefur gert Íslendingum kleift að taka þátt í rannsóknum og þróun sem skiptir íslenska hagsmuni og íslenskt samfélag verulegu máli.

IS