Á undanförnum árum hefur lagmetisiðnaðurinn gengið í endurnýjum lífdaga og eru nú fleiri niðursuðuverksmiðjur starfandi en um langt árabil og því mikilvægt að hafa gott og aðgengilegt fræðsluefni til staðar fyrir þá sem þar starfa eða ætla að starfa.
Þekking og miðlun er órjúfanlegur hluti nýsköpunar og aukinna verðmæta. Hversu miklum verðmætum á hvert kílógramm afla hver fróðleikur skilar er ómetanlegt því það má hæglega fullyrða að án þekkingar og verkkunnáttu verða ekki til nein verðmæti.
Þessum fullyrðingum til viðbótar má vitna í orð Forseta Íslands við setningu Sjávarútvegsráðstefnunnar 2016 þar sem hann sagði að menntun, í þeim sígilda skilningi að auka við þekkingu sína og færni, er frumskilyrði framfara.
Lagmetisvörur eru að mörgu leyti tæknilega flóknar vörur og þarf því virkilega góðan skilning á mikilvægi vinnsluþáttanna svo ekki skapist hætta fyrir neytendur. Til að ná þessu langa geymsluþoli lagmetisafurða má ekkert fara úrskeiðis, sem dæmi má nefna mikilvægi þátta eins og lokun dósa, suðuna sjálfa, hitastig og tíma, gerilsneyðingu, rotvörn og kælingu þegar það á við o.s.frv. Það má ekki gefa neinn afslátt í framleiðslu þessara afurða því lítil mistök geta haft mjög dramatískar afleiðingar.
Innlend smáframleiðsla af ýmsum toga víða um land hefur aukist mikið og oftar en ekki eru á ferðinni vörur sem falla í þennan flokk matvæla sem kallaður hefur verið lagmeti, því er mjög mikilvægt að til verði aðgengilegt efni á íslensku um helstu þætti þessarar vinnslu.
Gerð þessarar handbókar um lagmeti er styrkt að hluta af AVS, en Matís fjármagnar það sem upp á vantar. Í þessu samhengi er rétt að benda á að Ora hf, Akraborgin ehf og Hraðfrystihúsið Gunnvör leggja sitt af mörkum til að þessi handbók komi að sem bestum notum.
Verkefnisstjóri er Páll Gunnar Pálsson, sem ritað hefur sex handbækur og er með þessa lagmetisbók í smíðum og aðra um síldarverkun að auki. Páll Gunnar vann m.a. við niðursuðu í sjö ár svo nokkur þekking og reynsla er til staðar.
Ómetanlegt er að fá Einar Þór Lárusson sérfræðing hjá ORA til að vera með í þessu verkefni til að miðla af sinni miklu reynslu og þekkingu. En Einar Lár hefur unnið í lagmetis og fiskvinnslufyrirtækjum í áratugi við framleiðslu, en síðast en ekki síst við fjölbreytt vöruþróunar- og nýsköpunverkefni.
Markmiðið er að bókin birtist um eða upp úr næstu áramótum.