Elin Stenberg doktorsnemi við Institut för husdjurens miljö och hälsa við Landbúnaðarháskóla Svíþjóðar í Skara verður næstu sex vikurnar á Matís þar sem hún mun vinna með starfsfólki Matís og Háskóla Íslands að rannsóknum á áhrifum slátrunaraðferða og frystingar á gæði lambakjöts á Íslandi.
Elin mun taka þátt í öllum verkþáttum; slátrun, mælingum og sýnatöku í sláturhúsum, skynmati, áferðamælingum, NMR mælingum, tölfræðilegu uppgjöri, skýrslugerð og greinaskrifum. Þannig mun samstarfið við Matís/HÍ og vinnan á Íslandi nýtast og verða hluti af doktorsverkefninu hennar.
Doktorsverkefni Elínar er hluti af Interreg Öresund, Kattegat, Skagerak (European Regional Development Fund), verkefni sem styrkt er um 120 milljónir og snýst um að lýsa betur gæðum nauta- og lambakjöts til að styrka stöðu þess í samkeppni við innflutning og önnur matvæli á markaði. Ferðir og upphald Elínar er styrkt af Nordic Network of Meat Science sem Guðjón Þorkelsson og María Guðjónsdóttir taka þátt í (og er styrkt af NKJ, Nordic Joint Committee for Agricultural and Food Research).
Mikill ávinningur er af þessu samstarf fyrir kjötrannsóknir á Íslandi:
- Samstarfið styrkir rannsóknir á kjöti á Íslandi til hagsbóta fyrir framleiðendur, vinnslur og neytendur.
- Aðgangur að sérfræðiþekkingu og mælibúnaði sem skortir á Íslandi.
- Þjálfun nýrra sérfræðinga á þessu sviði.
- Auðveldara aðgengi í alþjóðlegt samstarf til að efla rannsóknir og fjármagna þær.