Fréttir

Ekki veiða það sem þú vilt ekki og fullnýttu það sem þú veiðir!

Upphafsfundur í íslenska hluta verkefnisins DiscardLess fór fram hjá Matís í sl. viku en verkefnið gengur út á að auka fullnýtingu á öllum afla sem veiddur er innan landa Evrópu og er stýrt af DTU í Danmörku. Upplýsingarnar og tæknin sem koma út úr verkefninu verða auk þess nýtanleg í öðrum löndum enda öllum til hagsbóta að sjávarfang sem ekki er óskað eftir eða ekki er nýtt sé annaðhvort ekki veitt eða fullnýtt til aukinnar verðmætasköpunar.

Stóra málið er að veiða ekki sjávarfang sem ekki er nýtt til verðmætasköpunar og þar með er hægt að minnka sóun á takmarkaðri auðlind. En stundum gerist það að óæskilegur afli er veiddur og er meðafli skýrt dæmi um slíkt. Því er mikilvægt að tryggt sé að slíkur afli sé nýttur eins og best verður á kosið. Auk þess má ekki gleyma að mikilvægt er að fullnýta einnig þann afla sem við viljum fá að landi þannig að sem mest verðmæti verði búin til úr hverju kg af sjávarfangi sem veitt er. Íslendingar hafa staðið sig sérstaklega vel í fullnýtingu ýmissa fisktegunda, þá sérstaklega þorsks.

Nánar um DiscardLess má finna í bæklingi um verkefnið sem og á CORDIS síðu verkefnisins. Tengiliður Matís við verkefnið er Jónas R. Viðarsson og veitir hann allar nánari upplýsingar um þetta áhugaverða og tímabæra verkefni.

IS