Fréttir

Taka höndum saman til að stuðla að frekari nýtingu auðlinda Breiðafjarðar og atvinnuuppbyggingu í Stykkishólmi

Stykkishólmsbær, írska fyrirtækið Marigot Ltd. sem á Íslenska kalkþörungafélagið á Bíldudal, og Matís ohf. hafa undirritað samkomulag sem hefur að markmiði að samþætta samstarf milli þessara aðila í tengslum við nýtt verkefni sem nú er í undirbúningi. Verkefnið lýtur að aukinni virðissköpun með frekari nýtingu stórþörunga við Breiðafjörð í nýju iðnfyrirtæki, Deltagen Iceland ehf., sem áætlar að reisa verksmiðju í Stykkishólmi. Gangi þær áætlanir eftir má gera ráð fyrir að starfsemi Deltagen Iceland með 15 nýjum heilsársstörfum hefjist á síðari hluta árs 2016.

Eins og greint var frá í síðustu viku hefur Marigot keypt 60% hlut í vinnsluhluta starfsemi nýsköpunarfyrirtækisins Marinox ehf. sem var alfarið í eigu Matís og tveggja lykilstjórnenda þar. Um er að ræða þann hluta fyrirtækisins sem heldur utan um rannsóknir og vinnslu verðmætra hráefna úr hafinu, þang og þara.

Friðrik Friðriks­son, formaður stjórn­ar Matís, Sturla Böðvars­son, bæj­ar­stjóri Stykk­is­hólms­bæj­ar, og Ein­ar Sveinn Ólafs­son, fram­kvæmda­stjóri Íslenska kalkþör­unga­fé­lags­ins, f.h. Marigot.

Hyggja á náið samstarf

Með því samkomulagi sem Stykkishólmsbær, Marigot og Matís hafa nú undirritað er ætlunin að örva samþættingu í samstarfi milli þessara aðila, m.a. til að stuðla að nýjum tækifærum á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar í sveitarfélaginu á grundvelli vísindastarfs og þarfa iðnaðarins. Gangi allar áætlanir eftir mun Deltagen Iceland reisa og reka nýja verksmiðju í Stykkishólmi þar sem unnir verða hágæða þörungakjarnar til útflutnings, ekki síst á grundvelli nýsköpunar og víðtækrar þekkingar vísindamanna Matís.

Varúðarsjónarmið grundvöllur sjálfbærrar þróunar

Sjálfbær nýting þangs og stórþörunga við Breiðafjörð er grundvöllur samstarfsins. Rannsóknir benda til að sjálfbær ávöxtun auðlindarinnar sé talsvert meiri en sem nemur núverandi nýtingu. Í samkomulaginu er tekið fram að ávallt verði gætt að varúðarsjónarmiðum við sérhverja framkvæmd sem fyrirhuguð starfsemi mun krefjast, enda eru þau grundvöllur sjálfbærrar þróunar á nýtingu lífrænna auðlinda. Megináhersla verður lögð á vísindalega nálgun við nýtingu auðlindarinnar með það að markmiði að fullnýta hráefnið með sem minnstum áhrifum á umhverfið samhliða sem mestum svæðisbundnum efnahagslegum ávinningi.

Viljum taka þátt í frekari atvinnuppbygginu

„Með stofnun Deltagen Iceland horfir Marigot til mögulegs framtíðarvaxtar í starfsemi sinni á Íslandi og gangi þessar áætlanir eftir verður verksmiðjan í Stykkishólmi reist gagngert með markmið starfseminnar í huga. Við horfum til Stykkishólms vegna fullnægjandi og nauðsynlegra innviða í bæjarfélaginu, tiltæks vinnuafls og nálægðar við hráefnið. Þetta er einnig skýrt merki um áhuga Marigot á því að taka þátt í frekari atvinnuuppbyggingu á Íslandi,“ segir Einar Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins og fulltrúi Marigot hér á landi.

Stuðlar að fjölbreyttari atvinnumöguleikum

„Við fögnum þessu spennandi samkomulagi sem hefur að markmiði að skapa fleiri störf og auka fjölbreytni atvinnulífsins hér á svæðinu. Miðað við áætlanir myndi verksmiðjan sjálf skapa 15 ársverk undir fullum afköstum auk starfa við þangslátt og söfnun, þróunar- og tæknivinnu auk annarra afleiddra starfa sem eru okkur í Stykkishólmi mikilvæg búbót í frekari atvinnuuppbyggingu. Bæjaryfirvöld eru núna að vinna í nauðsynlegum skipulagsmálum sem snúa að verkefninu, sem við vonum að gangi eftir. Fyrirhugaður iðnaður þyrfti m.a. að hafa beinan aðgang að góðri hafnaraðstöðu fyrir allstór flutningaskip og til að landa þangi úr flutningaprömmum og skipum sem flytja þang frá sláttuprömmum á Breiðafirði. Við munum skoða þetta verkefni með stjórnvöldum,“ segir Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi.

Fellur vel að meginhlutverki Matís

„Við fögnum þessu samkomulagi og lítum björtum augum til þeirra spennandi tækifæra sem samstarfið mun vonandi leiða af sér. Matís hefur í gegnum tíðina skapað sér öflugt orðspor á vettvangi rannsókna og nýsköpunar í matvælaframleiðslu og líftækni. Aðkoma okkar að starfsemi Deltagen Iceland verður í gegnum starf vísindamanna Matís þar sem mikil þekking er til staðar á vannýttum afurðum á borð við þang og þara. Með því að styðja við nýsköpun starfsmanna Matís með þessum hætti erum við að stuðla að nauðsynlegum hvata til að þróa hugmyndirnar áfram og búa til verðmætar vörur og efla þannig íslenskt atvinnulíf. Það er í raun eitt meginhlutverk Matís,“ segir Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður Matís.

Nánari upplýsingar veita eftirtaldir aðila:

Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, í síma 863 8888, Einar Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins, f.h. Marigot, í síma 897 0303 og Friðrik Friðriksson, formaður stjórnar Matís, í síma 896-7350.

IS