Aukið erlent samstarf einkenndi starfsemi Matís á árinu 2014. Alþjóðleg samvinna víkkar sjóndeildarhringinn, styrkir þekkingu og hæfni starfsmanna og styður við verðmætasköpun í matvæla- og líftækniiðnaði, bæði innanlands og utan. Alþjóðleg verkefni styðja ekki einungis vísindamenn og starfandi fyrirtæki, heldur styrkja einnig byggðaþróun með tilurð afleidds atvinnurekstrar, nýrra starfa og alþjóðlegra viðskiptatengsla fyrir fyrirtæki.
Árið 2014 var ár lífhagkerfisins (e. Bioeconomy). Aldrei fyrr höfum við gert okkur jafn vel grein fyrir mikilvægi vísinda og nýsköpunar þegar tekist er á við þær áskoranir sem fæðuöryggi og sjálfbær nýting lífauðlinda fela í sér. Matís hefur lagt áherslu á bláa lífhagkerfið og leikur lykilhlutverk á því sviði, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi.
Í hnattvæddum heimi er alþjóðleg samvinna vísindamanna og fyrirtækja lykillinn að því að auka samkeppnishæfni, skapa stöðug hagkerfi og velmegandi þjóðfélög. Matvælaframleiðsla er einn mikilvægasti þáttur íslensks hagkerfis. Matvælaöryggi gegnir þar lykilhlutverki. Á árinu 2014 átti Matís afar gott samstarf við sjávarútvegs-og landbúnaðarráðuneytið, þýska matvæla-og landbúnaðarráðuneytið og þýsku stofnanirnar BfR og LAVES, ásamt Matvælastofnun, við að byggja upp getu okkar til efnagreining á matvælum, í verkefninu „Örugg Matvæli“. Verkefnið stuðlar að enn öruggari matvælum á borðum íslenskra neytenda og eykur trúverðugleika íslenskra matvæla um allan heim. Það er mér ánægjuefni að þakka samstarfsaðilum okkar þeirra frábæra framlag og stuðning.
Samstarf við norræna frændur okkar hefur ætíð verið okkur Íslendingum mikilvægt. Ekki síst var það svo á árinu 2014 þegar Ísland skipaði formannsæti í norræna ráðherraráðinu, þar sem lífhagkerfið allt var í brennidepli í formannsverkefninu ”Innovation in the Nordic Bioeconomy“. Tækifæri í lífhagkerfi Norðurslóða voru til umfjöllunar á ráðstefnum sem Matís stóð fyrir, í júní og í nóvember. Það er mikilvægt fyrir Norðurlönd að vera í fararbroddi á sviði lífhagkerfisins, þegar kemur að því að grípa tækifæri og draga úr áhættum sem stafa af loftslagsbreytingum í okkar heimshluta. Með því að skapa hagstætt umhverfi á þessum svæðum fyrir nýsköpunarfyrirtæki, og þar með að skapa atvinnutækifæri fyrir vel þjálfað og menntað starfsfólk, er stuðlað að auknu verðmæti náttúruauðlinda og auknu fæðuöryggi á heimsvísu, sem hvort tveggja er ofarlega á dagskrá í alþjóðastjórnmálum.
Íslenskir framleiðendur sjávarafurða eru þekktir fyrir gæði, nýsköpun og ábyrga nýtingu auðlinda. Matís er stolt af því að hafa unnið með þeim í gegnum árin við að ná þessum árangri. Við eigum óhikað að halda áfram öflugri nýsköpun í matvælaframleiðslu en á sama tíma gera okkur grein fyrir mögulegri áhættu samfara nýsköpun og mikilvægi matvælaöryggis. Með slík gildi að leiðarljósi verður mestum árangri náð.
Neytendur nútímans eru upplýstir. Hneyksli tengd matvælaöryggi, aukin menntun og innleiðing samfélagsmiðla hafa breytt umhverfi matvælaframleiðslu til frambúðar. Gera má ráð fyrir að breytingar á því umhverfi muni halda áfram, þegar neytendur verða betur meðvitaðir um mismunandi kosti, viðskiptahindranir hafa verið fjarlægðar og netverslun mun ná nýjum hæðum. Neytendur morgundagsins munu fara fram á vísindalegar upplýsinga um næringargildi, aðskotaefni, áhrif á heilsu, samfélagslega ábyrgð og umhverfisáhrif matvælaframleiðslu. Til að matvælaframleiðendur geti svarað kalli neytenda þarf þekkingu. Rannsóknir Matís á þessum sviðum verða þess vegna allra hagur til framtíðar, líkt og raunin er í dag.
Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.