„Ísland hefur á formennskuári sínu í Norrænu ráðherranefndinni lagt áherslu á Norræna lífhagkerfið og sett af stað nokkur rannsóknaverkefni á því sviði. Markmið þessara verkefna er m.a. að finna nýjar leiðir til þess að nýta auðlindir okkar betur og koma í veg fyrir sóun“, segir Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Lífhagkerfið tekur yfir allar lífrænar auðlindir sem gefa af sér hráefni, s.s. sjóinn, beitilönd, öræfi, mannauð, skóg og ferskvatn. Leita þarf leiða til að nýta betur þessar auðlindir og þannig draga úr sóun þeirra hráefna sem þær gefa af sér. Á sama tíma þurfum við að tryggja heilbrigði vistkerfanna svo þau geti staðið af sér álag, s.s náttúruhamfarir. Skynsamleg nýting og uppbygging lífauðlinda getur stuðlað að því að draga úr náttúruvá, ef hún er skipulögð með það í huga, til dæmis draga skóglendi og óshólmar úr flóðahættu og skóglendi bindur eldfjallaösku.
Lífhagkerfið snertir allt líf á jörðinni. Því er mikilvægi þess að varðveita það ótvírætt. Dagur umhverfisins í apríl sl. var helgaður yfirskriftinni: „Hættum að henda mat“, en ein grunnforsenda þess að vernda lífhagkerfið er einmitt að taka ekki meira en við þurfum. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) áætlar að árlega fari 1,3 milljarðar tonna matvæla til spillis sem er um þriðjungur matvæla sem framleiddur er. Á sama tíma fer ein af hverjum sjö manneskjum í heiminum svöng að sofa og yfir 20 þúsund börn deyja daglega úr næringarskorti. Matarsóun er siðferðislegt vandamál, ekki síst í hinum vestræna heimi.
Brýnt er að vekja almenning til vitundar um afleiðingar matarsóunar og finna leiðir til að stemma stigu við henni. Þetta kallar á breyttan hugsunarhátt í allri framleiðslu og okkur ber skylda til að nýta hráefnið eins vel og hægt er. Það er einnig mikilvægt að nýsköpunarfyrirtæki leiti leiða til þess að fullvinna hráefni sem hingað til hefur farið til spillis og stuðli þannig að fullvinnslu. Matarúrgangur fellur til á öllum stigum matarkeðjunnar. Áætlað er að í þróunarlöndunum sé sóunin meiri á framleiðslustiginu á meðan því er öfugt farið í hinum vestrænum ríkjum þar sem sóunin á sér stað frekar á neyslustigi vörunnar.
Þetta kallar á að beitt sé lífsferilshugsun í allri stefnumótun og ákvarðanatöku um úrgangsmál, jafnt á vettvangi stjórnvalda sem og við framleiðslu vara. Af þeim sökum lagði ég fram frumvarp um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs á Alþingi í nóvember 2013 þar sem kveðið er á um ákveðna forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs og setningu reglna um stjórnun og stefnu í úrgangsmálum. Felst hún í fyrsta lagi í forvörnum í því skyni að koma í veg fyrir myndun úrgangs.
Þá er næst í forgangsröðinni undirbúningur fyrir endurnotkun, þá endurvinnsla, síðan önnur endurnýting, eins og orku-vinnsla, og loks förgun.
Matarúrgangur verður til af ýmsum ástæðum, svo sem offramleiðslu, ófullnægjandi geymsluaðferðum, óhentugum skammtastærðum og skorti á aðgæslu neytenda, t.d. þegar matur dagar uppi í ísskápnum. Einstaklingar geta lagt sitt af mörkum í baráttunni gegn matarsóun, t.d. með því að skipuleggja matarinnkaup betur, athuga dagsetningar og nýta matarafganga í stað þess að fleygja þeim.
Verkefni Matís sem snúa að bættri hráefnanýtingu og fullvinnslu eru samfélaginu mikilvæg þar sem slík verkefni stuðla að betri nýtingu auðlinda og draga um leið úr neikvæðum áhrifum á náttúruna. Þá er verulegur fjárhagslegur ávinningur af því fyrir einstaklinga og samfélagið að hætta að sóa mat um leið og það er siðferðislega og samfélagslega rétt að henda ekki matvælum á sama tíma og fjöldi manna í heiminum sveltur.
Á Norðurlöndum er að finna mikið hugvit og skapandi hugsun og með norrænu samstarfi hafa Norðurlöndin sýnt svo ekki verður um villst að þau hafa allar forsendur til að vera í fararbroddi á mörgum sviðum. Markmiðið með formennskuáætlun Íslands og þeim verkefnum sem unnið er að innan ramma hennar er og verður að styrkja stöðu Norðurlandanna enn frekar á þessu sviði.
Viðtalið við ráðherra birtist í ársskýrslu Matís fyrir starfsárið 2014 en skýrslan var gefin út 16. janúar sl.