Íslenskir framleiðendur telja sig vita að þorsk- og ýsuafurðir úr Norður-Atlantshafi standi öðrum framar þegar kemur að sjálfbærri nýtingu, lágmörkun umhverfisáhrifa og góðum starfsháttum sem lúta að efnahagslegum og félagslegum þáttum. En getum við raunverulega lagt mat á þessi atriði? Kynntu þér málið á fundi hjá Matís 25. nóvember kl. 13.
Kröfur um sjálfbæra nýtingu og lágmörkun umhverfisáhrifa hafa aukist síðustu misserin á mikilvægum mörkuðum fyrir sjávarafurðir Íslendinga. Þessum kröfum hefur meðal annars verið svarað með umhverfisvottunum, en upplýsingar um sjálfbærni framleiðslunnar í heild hafa hins vegar verið takmarkaðar.
Þeir sem hafa haft til þess fjárhagslega burði hafa látið framkvæma vistferilsgreiningu (LCA) í virðiskeðjum sínum. Vistferilsgreining segir hins vegar einvörðungu til um umhverfisálag framleiðslunnar á afmökuðu liðnu tímabili, en segir lítið um aðra þætti sjálfbærni, eins og til dæmis félagslega- og efnahagslega sjálfbærni. Íslenskir framleiðendur telja sig vita að þorsk- og ýsuafurðir úr Norður- Atlantshafi standi öðrum framar þegar kemur að sjálfbærri nýtingu, lágmörkun umhverfisáhrifa og góðum starfsháttum sem lúta að efnahagslegum og félagslegum þáttum. Þetta á sérstaklega við í samanburði við samkeppnisaðila okkar í öðrum heimsálfum. Með það að markmiði að gera smáum- og meðalstórum fyrirtækjum kleift að nýta það forskot sem þessir yfirburðir okkar í framleiðslu ættu að gefa í markaðslegum tilgangi hefur Matís, í samstarfi við fjölda fyrirtækja, samtaka og rannsóknastofnana unnið að þróun staðals sem gerir framleiðendum kleift að meta sjálfbærni þorsk- og ýsuframleiðslu sinnar á fljótlegan og einfaldan hátt. Stefnt er að því að staðallinn verði gefinn út af CEN í lok þessa árs.
Kynning verður á staðlinum og aðstoð við að nýta hann í rekstri
Þriðjudaginn 25. nóvember kl 13:00 fer fram á Matís kynning á staðlinum, aðferðafræðinni sem hann er byggður á og útskýringar á því hvernig íslenskir framleiðendur geta nýtt hann í daglegum rekstri og í markaðslegum tilgangi. Í framhaldi af fundinum mun Matís aðstoða þá framleiðendur sem áhuga hafa við innleiðingu staðalsins.
Nánari upplýsingar má finna á einblöðungi um þetta efni sem og með því að hafa samband við Jónas R. Viðarsson hjá Matís.