Fréttir

Fiskneysla eykst í heiminum

Stöðugur vöxtur hefur einkennt fiskframleiðslu síðustu fimm áratugina, þar sem áhersla hefur verið á framleiðslu fisks til manneldis. Fiskneysla eykst frá ári til árs og bættar geymslu aðferðir gera það að verkum að fiskur kemst ferskur á sífellt fleiri markaði og aðgengi að honum verður betra. Í þessu felast vissulega tækifæri fyrir Íslendinga.

Framleiðsla á fiski til manneldis hefur aukist um að meðaltali 3.2% á ári síðustu áratugina á sama tíma og fólksfjölgun hefur numið 1.9%. Neysla á fiski eykst líka stöðugt, en árið 1960 var meðal neysla 9,9 kg á ári en árið 2012 hafði fiskneysla tvöfaldast og meðalneysla nam 19.2 kg á heimsvísu.

Ástæða aukinnar fiskneyslu er rakin til bættra geymsluaðferða sem gera það að verkum að hægt er að dreifa ferskum fisk á stærra svæði en áður hefur verið hægt. Þá hefur vaxandi millistétt haft sitt að segja þar sem henni fylgja hærri meðallaun og þéttbýlismyndun en hvort tveggja hefur áhrif á fiskneyslu. Fiskneysla er að meðaltali meiri í þróaðri ríkjum heims, þar sem hún er háðari staðsetningu og árstíðarbundnum sveiflum annarstaðar. Talið er að 16.7% af neyttu dýrapróteini í heiminum sé úr fiski, sem bendir til þess að fisk neysla eigi eftir að aukast enn frekar þegar fram í sækir.

Fiskframleiðsla mun án efa ýta undir þessa þróun þar sem fiskeldi hefur vaxið að meðaltali um 6.2% á ári frá 2000 til 2012 eða frá því að vera 32.4 milljón tonn í 66.6 milljón tonn. Einungis 15 lönd bera uppi 92.7% af fiskframleiðslu í heiminum. Stærstu framleiðendurnir eru Kína og Indland auk þess sem Brasilía og Víetnam hafa sótt í sig veðrið. Þessi mikla aukning í fiskeldi hefur skapað milljónir starfa og árið 2012 störfuðu 4.4% allra þeirra sem vinna innan landbúnaðar í heiminum við fiskeldi, 90% starfsmanna í fiskvinnslum í heiminum eru konur. FAO telur að sjávarútvegur og fiskeldi sjái um 10-12% af heimsbyggðinni fyrir lífsviðurværi.  

Kína er langstærsti fisk útflytjandinn í heiminum í dag og þriðji stærsti innflytjandinn á eftir Bandaríkjunum og Japan. Evrópusambandið er hinsvegar stærsti markaðurinn fyrir innfluttan fisk og vörur tengdar sjávarútveginum. Þróunarlöndin hafa sótt verulega í sig veðrið að undanförnu og nam fisk útflutningur þeirra 54% af öllum útflutning á fisk árið 2012.

Samkvæmt FAO starfa 14 milljónir manna í Kína í fiskiðnaði, en það nemur 25% af öllum þeim sem starfa í greininni á heimsvísu. Frá árinu 1995 hefur þó dregið verulega úr fjölda þeirra sem starfa í iðnaðinum á heimsvísu, þrátt fyrir að sífellt meira sé framleitt með vélvæðingu sem leitt hefur af sér hagkvæmni. Þetta á einnig við hér á landi þar sem fiskvinnslustörfum hefur fækkað um 30% frá árinu 1995 – 2012. Í Japan hefur störfum í iðnaðinum fækkað um 42% í og um 49% í Noregi. Ástæðan er bætt vinnsluferli og tækniframfarir sem hafa leyst mannaflið af hólmi að stórum hluta.

En þrátt fyrir vissa hnignun m.t.t. fjölda starfsfólks í greininni á síðust árum má ljóst vera að tækifærin eru til staðar ef vilji er fyrir hendi, enda bendir ekkert til þess að fisk neysla muni gera neitt annað en aukast á komandi árum. Í því sambandi má benda á þá athygli sem beinist að lífhagkerfum jarðar sjávarútvegstengd starfsemi getur nýtt sér þá athygli til vaxtar, einkum í löndum þar sem hráefnisins er aflað með sjálfbærum hætti og vinnsla þess er í samræmi við kröfur um samfélagslega ábyrgð, í því felast okkar tækifæri.

Ítarefni

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson hjá Matís.

IS