Matís, ásamt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Háskóla Íslands og Mercator Media, skipuleggur mjög áhugaverða ráðstefnu sem fram fer fyrsta dag Sjávarútvegssýningarinnar (IceFish) í Kópavogi en ráðstefnan fer fram dagana 25.-27. september nk.
Matís hefur tekið þátt í öllum IceFish sýningunum frá stofnun Matís árið 2007. Sýningin er sú stærsta sinnar tegundar hér á landi og þar koma saman allir helstu aðilarnir í sjávarútvegi og greinum tengdum sjávarútvegi hér á landi sem og frá öðrum löndum. Sýningin hefur stækkað jafnt og þétt frá upphafi árið 1984 og er það eftirtektarvert að þátttakendum og gestum fjölgaði verulega árin 2008 og 2011 og það þrátt fyrir margskonar þrengingar hér á landi.
Ráðstefnan sem Matís tekur þátt í að skipuleggja mun fjalla gaumgæfilega um hvernig við getum bætt okkur enn frekar þegar kemur að fullnýtingu sjávarfangs. Íslendingar standa mjög framarlega í fullnýtingu sjávarafla og margir horfa til Íslendinga þegar kemur að því að læra réttu handtökin ef svo má á orði komast. Þegar talið kemur til dæmis að þorski og fullnýtingu alls hráefnis sem kemur að landi þá ber nafn Sigurjóns Arasonar, yfirverkfræðings hjá Matís, jafnan á góma enda fáir ef nokkur með jafn mikla reynslu og þekkingu þegar kemur að bættri nýtingu þorsks og annarra fisktegunda og spannar starf hans með íslenskum sjávarútvegi meira en 30 ár.
Sigurjón mun halda fyrirlestur á ráðstefnunni sem og dr. Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís. Fleiri mjög áhugaverðir fyrirlesarar verða á ráðstefnunni og má þar nefna Friðrik Sigurðsson ráðgjafa sem lengi hefur starfað í sjávarútveginum í Noregi, Hólmfríði Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra Iceprotein á Sauðárkróki, en Hólmfríður starfaði um árabil í starfsstöð Matís á Króknum, og Ingólfi Arnarsyni, framkvæmdastjóra Skagans.
Nánar um ráðstefnuna má finna á heimsíðunni www.icefishconference.com
Nánari upplýsingar veita Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís og Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.