Matís leitar eftir þremur nemendum til þess að vinna að rannsóknum hjá fyrirtækinu. Verkefnin eru 60 eininga og nýtast þar með sem lokaverkefni. Verkefnin eru unnin í samstarfi með stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Möguleiki er á styrk.
Verkefnin henta nemendum í matvælafræði, efnafræði og líffræði. Umsóknafrestur er til og með 14. júlí næstkomandi. Verkefnin sem umræðir eru:
Hámörkun gæða frosinna makrílafurða:
Megin markmið verkefnisins er að rannsaka gæði og stöðugleika makrílafurða í frosti eftir árstíðum og áhrif mismunandi forkælingar, frystingar og geymsluaðstæðna. Þróuð verða varmaflutningslíkön sem spáð geta fyrir um hitabreytingar í makríl við vinnslu, geymslu og flutning. Með því að skoða samspil þessara þátta er hægt að hámarka gæði og nýtingu makríls og því um leið verðmæti hans.
Óskað er eftir nemanda sem getur hafist handa á haustönn 2014.
Aukin gæði og stöðugleiki frosinna síldarafurða:
Aðalmarkmið verkefnisins er að hámarka einsleit gæði og verðmæti íslenskra síldarafurða. Gæði og stöðugleiki síldarafurða í frosti eftir árstíðum og áhrif mismunandi forkælingar, frystingar og geymsluaðstæðna verða könnuð. Niðurstöðurnar munu ekki bara leiða af sér minni gæðarýrnun sem verður vegna geymslu og flutninga, heldur einnig auka skilning á tengslum milli afurðargalla og þeirra áhrifa sem hráefnið verður fyrir frá veiðum og út á markaði.
Óskað er eftir nemanda sem getur hafist handa á haustönn 2014.
Geymsluþol léttsaltaðra flaka í frosti:
Markmið verkefnisins er að auka verðmæti sjávarfangs með því að greina kjöraðstæður við geymslu á léttsöltuðum þorsk- og ufsaflökum og um leið auka stöðugleika þessara afurða miðaða við árstíma og hráefnisgæði. Mjög fáar rannsóknir hafa verið gerðar á þessum þáttum og mun verkefnið því skapa mikilvægar upplýsingar, stöðugri og ekki síst verðmætari sjávarafurðir.
Óskað er eftir nemanda sem getur hafist handa á vorönn 2015, möguleiki er á að klára verkefnið á sumarönn.
Frekari upplýsingar veitir Sigurjón Arasson.