Fréttir

Hægt er að ofurkæla heilan fisk

Lokið er verkefninu Ofurkældur heill fiskur – fyrir dauðastirðnun sem styrkt var af AVS Rannsóknasjóð í sjávarútvegi R 062-11 en verkefnið var unnið í samstarfi Matís, Skagans og Rekstrarfélagsins Eskju.

Verkefnið hefur skilað aukinni þekkingu á ofurkælingu hvítsfisks, sér í lagi ofurkælingu heils fisks, og áhrifum ofurkælingar á gæði, ferskleika og geymsluþol. Nú liggja fyrir niðurstöður tilrauna, sem koma til með að nýtast til hönnunar á ofurkæli fyrir heilan fisk en hingað til hefur CBC-tækni Skagans einkum verið nýtt til að ofurkæla flök. Geymsluþolstilraun, sem var gerð í verkefninu, og geymsluspálíkön benda til að ofurkæling við –1 °C getur aukið geymsluþol heils fisks um 2–3 daga og geymsluþol flaka um 1 dag m.v. 6 daga gamalt hráefni við vinnslu. Þannig verður að teljast líklegt að afurðir verkefnisins komið til með að nýtast  ferskfiskframleiðendum til að hámarka gæði og öryggi afurða sinna. Með beitingu ofurkælingar við fiskvinnslu er unnt að koma afurðum köldum í umbúðir, með því móti má t.a.m. flytja fersk fisk flök á fjarlægari markaði en áður sé hitaálag í flutningum lágmarkað.

Ítarlegri niðurstöður úr tilraunum verkefnisins má finna í Matís skýrslum Ofurkældur heill fiskur – Lokaskýrsla, Matísskýrsla númer 12-13 og Áhrif ofurkælingar á skemmdarferla og geymsluþol heils fisks og flaka Matísskýrsla númer 22-12.

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Auðlinda og afurða.

IS