Fréttir

Undirritun samstarfssamnings HA og Matís

Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, og Ögmundur Knútsson, forseti viðskipta- og raunvísindasvið HA, skrifuðu undir samstarfssamning nú fyrir stuttu.

Samningurinn leggur grunn að frekari eflingu rannsókna og menntunar í sjávarútvegsfræðum, matvælafræðum og líftækni auk samstarfs á öðrum sviðum kennslu og rannsókna, með það að markmiði að vera í fararbroddi á Íslandi á þeim fræðasviðum sem tengjast sjávarútvegsfræði og líftækni, sem bæði eru kennd við HA. Eitt af markmiðum samningsins er að efla kennslu og rannsóknir á sviði sjávarútvegsfræða, matvælafræða og líftækni, m.a. með sókn í alþjóðlega sjóði og samstarf á sviði nýtingar auðlinda norðurslóða.

Markmið hans er einnig að fjölga þeim sem stunda nám og rannsóknir á þessum fræðasviðum, samþætta rannsókna- og þróunarverkefni á sviði sjálfbærrar auðlindanýtingar, vinnslutækni, líftækni, matvælaöryggis og lýðheilsu, að virkja fleiri starfsmenn Matís í kennslu við HA og gefa viðkomandi starfsmönnum Matís kost á því að fá faglegt akademískt mat hjá HA/Viðskipta- og raunvísindasviði og möguleika á gestakennarastöðum, enda verða greinar birtar undir hatti beggja samningsaðila, ásamt því að samnýta aðstöðu, húsakost og tækjabúnað.

Háskólinn á Akureyri er íslenskur rannsóknaháskóli sem tekur virkan þátt í alþjóðlegu rannsóknastarfi. Í háskólanum eru um 1600 nemendur í grunn- og framhaldsnámi, í staðarnámi og fjarnámi. Sjávarútvegsfræði hefur verið kennd við HA síðan 1990 og líftækni frá árinu 2002, námsgreinarnar eru nú kenndar við Auðlindadeild Viðskipta og raunvísindasviðs HA sem auk þess hefur boðið upp á meistaranám í sjávarútvegs og auðlindafræðum. Vegna eðlis námsins hefur kennsla í sjávarútvegsfræði frá upphafi farið fram í samstarfi við innlend sjávarútvegsfyrirtæki og fyrirtæki í tengdum greinum.

Matís er stærsta rannsóknastofnun landsins sem sinnir rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla og líftækni í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvæla- og fæðuöryggis. Matís gegnir umfangsmiklu hlutverki varðandi þjónustu á sviði rannsókna, menntunar og nýsköpunar. Lögð hefur verið áhersla á að mæta þörfum matvælaframleiðenda og frumkvöðla, í samstarfi menntakerfið, m.a. í formi hagnýtra verkefna með þátttöku nemenda.

Á myndinni eru Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, Ögmundur Knútsson, forseti viðskipta- og raunvísindasviðs HA, Rannveig Björnsdóttir, dósent við auðlindadeild HA og fagstjóri hjá Matís, og Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri.

Frétt skrifuð af Hjalta Þór Sveinssyni og birt fyrst á vefsvæði Háskólans á Akureyri, www.unak.is.

IS