Fréttir

Vor í lofti

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Verkefnið Vor í lofti 2014 er átaksverkefni Matís ohf í samstarfi við sveitarfélögin Vesturbyggð og Tálknafjarðarhrepp. Verkefninu er ætlað að hvetja áhugasama íbúa í sveitarfélögunum til að hrinda hugmyndum sínum á sviði matvælaframleiðslu og líftækni í framkvæmd.

Verkefnið mun standa í eitt ár og er ætlunin að það skili að minnsta kosti þremur fullmótuðum hugmyndum í lok verkefnisins.

Tilgangurinn með verkefninu Vor í lofti 2014 er að auka möguleika á aukinni úrvinnslu hráefnis og efla þannig virðisaukningu þess hráefnis sem fyrir hendi er á sunnanverðum Vestfjörðum. Miklir möguleikar eru fólgnir í því verðmæta hráefni sem til verður á svæðinu, bæði til sjós og lands. Margskonar tækifæri eru fyrir hendi við að fullvinna hráefnið í verðmæta vöru eða þróa nýjar afurðir úr því sem til fellur við úrvinnslu hráefnisins. Mikil þekking og reynsla er fyrir hendi varðandi veiðar og vinnslu á bolfiski en auk þess er fiskeldi öflug og vaxandi starfsgrein á sunnanverðum Vestfjörðum. Í Arnarfirði er vinnsla á kalkþörungum á vegum Íslenska Kalkþörungafélagins á Bíldudal þar sem stærsti hluti afurðanna er fluttur erlendis en hluti fer í fullvinnslu hér á landi til manneldis. Landbúnaður hefur átt undir högg að sækja á svæðinu en þó er bæði sauðfjárbúskapur og mjólkurframleiðsla rekin af myndarskap á þó nokkrum jörðum í sýslunni. Því eru margir möguleikar á bættri nýtingu og fullvinnslu afurða af svæðinu og hægt að bæta arðsemi af rekstri verulega með aukinni verðmætasköpun á heimavelli. Fyrirtæki og sveitarfélög í Barðastrandarsýslu eru mjög meðvituð um vistvæna og góða umgengni við náttúru og lífríki og mörg fyrirtækjanna eru með lífræna vottun eða annars konar viðurkenndar umhverfisvottanir á framleiðslu sinni sem styrkir verulega stöðu þeirra í samkeppni. Slík vottun er svæðinu í heild til framdráttar við markaðssetningu á vörum og þjónustu þar sem umhverfisvitund almennings eykst stöðugt.

Markmið verkefnisins Vor í lofti 2014 er að styðja við hugmyndir sem frumkvöðlar á svæðinu búa yfir og aðstoða þá við að koma hugmyndunum í framkvæmd. Slík aðstoð við hugmyndir leggur öflugan grunn að sprotaverkefnum sem síðan geta vaxið og dafnað í höndum heimamanna og þannig lagt sitt af mörkum til að efla atvinnulíf og samfélagið í heild sinni á sunnanverðum Vestfjörðum. Þær hugmyndir sem hljóta aðstoð Matís munu eiga það sameiginlegt að hægt verður að sjá áþreifanlegan árangur á verkefnistímanum og að minnsta kosti þrjár fullmótaðar hugmyndir, vörur eða viðskiptaáætlanir verði til á þeim tólf mánuðum sem átaksverkefnið mun standa. Gert er ráð fyrir að afrakstur verkefnisins Vor í lofti 2014 verði formlega kynntur haustið 2014 og afurðir þeirra sem tekið hafa þátt í uppbyggingunni kynntar við það tækifæri.

Verkefnið hefur þegar verið kynnt á opnum fundum sem haldnir voru á fjórum stöðum, Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal og Barðaströnd, um miðjan desember og voru viðtökur heimamanna prýðisgóðar. Framundan er nánari útfærsla á þeim hugmyndum sem fram hafa komið og tekin ákvörðun um þau verkefni sem verða hluti af átaksverkefninu Vor í lofti 2014. Þeir sem sýnt hafa áhuga á þátttöku munu skilgreina hugmyndir sínar betur á næstu vikum í samstarfi við starfsfólk Matís og útbúa verkáætlun. Gert er ráð fyrir að vinna við vöruþróun og framkvæmd hverrar hugmyndar hefjist í byrjun febrúar þegar gerðir hafa verið samningar við samstarfsaðila og þátttakendur.

Verkefnið Vor í lofti 2014 er styrkt af Rannsóknar- og Nýsköpunarsjóði Vestur-Barðastrandarsýslu og Matís auk þess sem verkefni frumkvöðla munu verða unnin í samstarfi við sveitarfélögin Vesturbyggð og Tálknafjarðarhrepp eftir því sem við verður komið.

Nánari upplýsingar um verkefnið Vor í lofti 2014 gefur Lilja Magnúsdóttir, starfsmaður Matís á Patreksfirði (858-5085, liljam@matis.is).

IS