Fréttir

Viltu vita hver lágmarkslaunin eru í fyrirtækinu sem framleiðir matvælin sem þú neytir?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Raddir þess efnis að neytendur hafi nákvæmar upplýsingar um matvæli verða sífellt háværari. Hvort sem það eru upplýsingar um innihald, rekjanleika eða næringargildi, þá er fjöldi fólks, þá sérstaklega í vestrænum samfélögum, sem telur sig hafa not fyrir slíkar upplýsingar.

En hvers virði eru hinar ýmsu upplýsingar um matvæli?

Tækninni fleygir fram hvað varðar geymslu á upplýsingum. Fyrirtækin GS1 og Matís hafa átt í samstarfi er snýr m.a. að rekjanleika matvæla en innan GS1 er yfirgripsmikil þekking t.d. á notkunarmöguleikum strikamerkinga. Margir vilja meina að hægt sé að nota strikamerkin mun betur en gert er í dag og vinnur GS1 einmitt að þeim málum. Getur t.d. verið að í nánustu framtíð verði hægt að skanna strikamerki til þess að fá upplýsingar ekki bara um heiti eða verð vöru heldur líka um uppruna vörunnar, ferlið sem varan hefur farið í gegnum í framleiðslu og flutningi, aðbúnað og lágmarkslaun starfsmanna sem komu að framleiðslu vörunnar, hversu mikið framleiðslan og flutningur vörunnar mengaði (t.d. sótspor, e. carbon footprint), innihaldsefni, ofnæmis- og óþolsvalda eða næringargildi?

Ef við nefnum sérstaklega uppruna og rekjanleika matvæla þá hefur mörgum íslenskum neytendum þótt mikilvægt að vita hvaðan matvælin koma eða hráefnin sem notuð eru til þess að framleiða þau. Mikilvægt þykir mörgum einnig að hægt sé að rekja til baka öll skref framleiðslu, flutnings og markaðssetningu vöru og segja sumir að ekki sé hægt að taka upplýsta ákvörðun um kaup á vöru fyrr en upplýsingar um uppruna séu til staðar sem og rekjanleiki. Krafan um slíkt verður sífellt háværari, ekki síst vegna kröfu neytenda um að matvæli séu á allan hátt örugg til neyslu og valdi okkur ekki skaða.

Tækifærin eru mikil þegar kemur að merkingum matvæla og fræðslu um þau

Fleiri fyrirtæki, sem Matís hefur átt í góðu samstarfi við, vinna frumkvöðlastarf í því að koma upplýsingum um matvæli til neytenda. FooDoIt (fyrir food do it) er eitt slíkt. Starfsmenn þess fyrirtækis hafa nýtt sér gagnagrunna Matís um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) til þess að hanna notendavænt forrit sem nýta má til að sækja upplýsingar um nánast hvaða innihaldsefni sem er í matvælum. Slíkar upplýsingar geta nýst mörgum og má þar nefna fólk með sykursýki, fólk með óþol eða ofnæmi fyrir ákveðnum innihaldsefnum, fólk sem langar til þess að skera sykurneyslu við nögl (t.d. lág-kolvetna mataræðið) eða þeir sem vilja hafa handhægar upplýsingar um orkuinnihald matvælanna sem neytt er. Fyrir stuttu var sett upp tilraun með slíka hluti í mötuneyti Matís að Vínlandsleið 12 og fengu starfsmenn upplýsingar um ýmislegt sem snéri að hádegismatnum þann daginn. Í framhaldinu verður gerð önnur tilraun þar sem starfsmenn, sem það vilja, geta nýtt sér upplýsingar úr forritum FooDoIt manna og borið saman við þörf sína og hegðunarmynstur þann daginn. Með þeim hætti má til dæmis gera heiðarlega tilraun til þess að halda matarneyslu innan þeirra marka sem orkubrennsla líkamans setur nú eða bæta í ef upp á vantar; allt sérhannað fyrir hvern og einn.

Ýmislegt fleira áhugavert er í skoðun og koma snjallsímar og snjallúr við sögu í mörgu því sem verið er að skoða og prófa.

Krónan hefur nú, fyrst íslenskra verslana, komið sér upp skemmtilegu smáforriti þar sem m.a. er hægt að skanna allar þeirra vörur til þess að fá upplýsingar um verð. Forritið gerir neytendum einnig kleift að bæta vörum á innkaupalista og finna út hvaða tilboð eru í gangi svo dæmi séu tekin.

Nú fyrir stuttu kom Matís með hentugt snjallsíma smáforrit fyrir sjómenn. Tilgangurinn með því forriti er að gefa sjómönnum kost á að átta sig á því hversu mikinn ís þörf er á nota til þess að kæling hráefnisins sé nægjanleg frá upphafi en slíkt er forsenda fyrir því að gæði haldist alveg að borði neytenda. Rétt kæling í upphafi tryggir ekki eingöngu gæði og fersleika heldur stuðlar að því að matvælin séu örugg til neyslu þegar á diskinn er komið. Upplýsingar um ísAPP Matís má finna hér.

Gaman er að velta fyrir sér framtíðar möguleikum í upplýsingaveitu um matvæli. Verður til dæmis hægt í nánustu framtíð að ýta innkaupakerru í gegn um svokölluð hlið í matvöruverslunum hér á landi þar sem allar vörur er skannaðar í einu? Með slíku kerfi, þar sem örflaga er í umbúðum vara, væri óþarfi að skanna eina og eina vöru heldur yrðu allar vörurnar skannaðar nánast á broti úr sekúndu þegar innkaupakerrunni er ýtt í gegnum þetta hlið. Svo væri hægt að greiða fyrir vörurnar með snjallsímanum, en snjallsímagreiðslur eru nú þegar orðnar nokkuð algengar hér á landi. Slíkt kerfi gæti sparað umtalsverðan tíma í innkaupaferðum í matvöruverslunum og auk þess gert verslunum kleift að minnka líkur á þjófnaði.

Innkaupakerrur með gervigreind

Whole Foods Market í Bandaríkjunum hefur gert tilraunir með sérstakar innkaupakerrur þar sem skanni veitir upplýsingar um vöruna sem lögð er í kerruna. Slíkt er til mikilla hagsbóta fyrir neytendur enda er tilgangurinn að veita upplýsingar um hina ýmsu þætti um vörur, t.d. um verð eða óþols- og ofnæmisvalda, og hvernig þessar vörur henta neytandanum sem verslar í matinn. Og auk þess þarf ekki að bíða í röð eftir því að starfsmaður skanni matvælin heldur er farið beint að greiðslugátt til þess að borga t.d. með snjallsíma eða millifært er af reikningi kaupandans. Myndbrot um þessa tilraun má finna hér.

Svo má spyrja hvort neytendur geti í framtíðinni tengst ísskápum sínum með snjallsíma í gegnum sérstakt smáforrit sem veitir upplýsingar um „stöðuna“ í ísskápnum og hvað það er sem þörf er á að kaupa í búðinni?

Tækifærin eru óþrjótandi og auðvelt að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn!

Í nútíma samfélagi eru kröfurnar sífellt meiri þegar kemur að upplýsingum um matvæli. Íslensk matvælaframleiðsla ber af að mörgu leyti samanborið við matvælaframleiðslu í öðrum löndum. Tækifærin eru þó til staðar til að gera enn betur og mikil sóknarfæri liggja í því að vera með upplýsingar sem neytendur vita jafnvel ekki í dag að þeir gætu haft gagn og gaman af. Því má segja að bæði framleiðendur matvæla og neytendur, og e.t.v. heilbrigðisyfirvöld, gætu notið góðs af enn frekari upplýsingastreymi frá öllum skrefum matvælaframleiðslu.

Nánari upplýsingar veita Steinar B. Aðalbjörnsson og Sigríður Sigurðardóttir hjá Matís.

IS