Fréttir

Matís tekur við rekstri SAFE

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Á árinu 2013 tók Matís við framkvæmdastjórn og rekstri SAFE Consortium, evrópskum samstarfsvettvangi rannsóknastofnana á sviði matvælaöryggis. Þátttakendur í SAFE eiga það allir sameiginlegt að leggja áherslu á mikilvægi matvælaöryggis og þann samfélagslega ávinning sem hlýst af rannsóknum og þekkingaruppbyggingu á því sviði.

SAFE eflir alþjóðleg tengsl

Í krafti samvinnunnar fá þátttakendur SAFE aukinn hljómgrunn á alþjóðavettvangi og aukið vægi í stefnumörkun hins opinbera er lýtur að matvælaöryggi.

 „Það er hætt við því að umræða um matvælaöryggi týnist í almennri umræðu um heilbrigðis- og umhverfismál og missi því vægi sitt sem sér málaflokkur. Með þátttöku okkar í SAFE skapast mikilvæg tengsl við hagsmunaaðila, alþjóðasamtök og háskólasamfélagið víða um heim. Tengsl sem efla möguleika okkar til að hafa áhrif á umræðuna um matvælaöryggi og beina sjónum á mikilvægi langtímarannsókna á því sviði, “ segir Oddur Már Gunnarsson, sviðsstjóri Viðskiptaþróunar og framkvæmdastjóri SAFE.

„Tryggur aðgangur að nægum öruggum matvælum er grundvallaratriði fyrir almenna lýðheilsu og mikilvægt fyrir iðnaðinn að ekki leiki vafi á öryggi þeirra afurða sem verslað er með. Hér á landi varðar það beinlínis útflutningshagsmuni og efnahagsstöðu ef okkar stærsta útflutningsafurð, fiskurinn, er ekki öruggur til neyslu og geta því óörugg matvæli ekki eingöngu ógnað heilsu okkar og hreysti, heldur einnig valdið markaðstjóni.“

Oddur segir að yfirleitt komi skammtímaáhrif heilsuspillandi matvæla skjótt í ljós, en langtímaáhrifin séu ekki eins kunn. Því sé eitt af markmiðum SAFE að vekja athygli á þeim áhrifaþáttum í matvælum sem geta skaðað heilsu fólks hægt og bítandi. Saman leggja þátttakendur SAFE þyngri lóðir á vogarskálarnar við að efla þennan málaflokk á alþjóðavísu og skapa dýpri þekkingu á matvælaöryggi og gildi rannsókna á þessu sviði.

Sem leiðandi aðili innan SAFE skapast tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á stefnumörkun á þessu sviði, auk þess að styrkja ímynd Matís þegar kemur að fjölþjóðlegum rannsóknarverkefnum sem snúa að matvælaöryggi.

Nánari upplýsingar veitir Oddur Már.

Heimasíða SAFE Consortium: www.safeconsortium.org/

IS