Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Marinox ehf. hlaut á dögunum veglegan rannsókna- og þróunarstyrk á vettvangi Eurostars áætlunarinnar sem 33 ríki í Evrópu eru aðilar að. Verkefni Marinox og samstarfsaðila var metið fjórða besta verkefnið af 594 verkefnum.
Fjórða besta Eurostars verkefnið
Verkefnið var metið fjórða besta verkefnið af 594 verkefnum sem sótt var um styrk fyrir og var samkeppnin um styrkveitingu hörð, en þetta var í tíunda skiptið sem lýst var eftir umsóknum. Eurostars áætlunin miðar að því að styrkja smá og meðalstór fyrirtæki í að koma vörum, ferlum eða þjónustu til almenningsnota á markað. Verkefninu er stýrt af Marinox en samstarfsaðilar eru Matís og Due Miljö í Noregi. Tækniþróunarsjóður styrkir hlut Íslands í verkefninu.
Styrkurinn er mikil viðurkenning fyrir Marinox og þá brautryðjandi rannsókna- og þróunarvinnu sem þar er stunduð. Verkefnið snýr að því að fullvinna verðmæt lífvirk efni úr íslenskum stórþörungum sem meðal annars má nota sem fæðubótarefni eða sem íblöndunarefni í ýmsar neytendavörur. Marinox er nýsköpunarfyrirtæki runnið undan rifjum Matís og hefur síðustu ár þróað aðferðir til að einangra virk efni úr sjávarþörungum og afurðir sem innihalda þau. Marinox framleiðir meðal annars UNA Skincare húðvörurnar sem innihalda virk innihaldsefni úr sjávarþörungum.
Frekari upplýsingar um verkefnið veitir dr. Hörður G. Kristinsson hjá Marinox ehf. og um Eurostars Snæbjörn Kristjánsson (skr@nmi.is) landstengiliður Eurostars hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.