Fréttir

Viskí úr íslensku byggi hlutskarpast í keppni um nýjar hugmyndir í matvælaframleiðslu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Fyrirtækið Þoran sem þróar nú framleiðslu á íslensku gæðaviskí úr byggi hlaut fyrstu verðlaun í nýsköpunarsamkeppni Matís og Landsbankans fyrir viðskiptahugmyndir í matvæla- og líftækniiðnaði sem byggðar eru á íslensku hráefni og hugviti.

Fyrstu verðlaun eru 1 milljón króna frá Landsbankanum og mikilvæg tæknileg ráðgjöf og aðstaða til að vinna áfram að hugmyndinni frá Matís. Á myndinni má sjá fulltrúar Landsbankans og Matís ásamt Birgi Má Sigurðssyni og Bergþóru Aradóttur fyrir hönd sigurhugmyndarinnar Þoran – íslenskt gæðaviský.

Aðrar hugmyndir sem skara þóttu fram úr að þessu sinni voru:

  • GeoSilica – Kísilsvifvökvi sem fæðubótarefni
  • Íslandus – drykkja- og ísframleiðsla úr mysu
  • Bygg og þarapasta – þróun og framleiðsla á hollu pasta

Aðstandendur þessara fjögurra viðskiptahugmynda fá nú tækifæri til að kynna hugmynd sína fyrir fjárfestum og vinna áfram að útfærslu þeirra með aðstoð sérfræðinga Matís.

Nýsköpunarkeppnin bar yfirskriftina „Þetta er eitthvað annað” og vísar heitið til umræðu um nýjungar í atvinnulífi sem oft lýkur með því að sagt er að „gera eigi eitthvað annað”, eða til óskilgreindra úrræða sem margir tala um en hafa ekki nafn yfir. Í þessari samkeppni skapast einmitt tækifæri til að gera „eitthvað annað”.

Aðstandendur keppninnar ætla henni að vera öflugur hvati til uppbyggingar lítilla og meðalstórra fyrirtækja á sviði matvæla og líftækni, með varanlega verðmætasköpun að leiðarljósi.

Sveinn Margeirsson forstjóri Matís segir: „Sigurvegarar í keppninni að þessu sinni settu fram einstaklega skemmtilega hugmynd að óhefðbundinni matvöru sem á fyrirtaks markaðsmöguleika. Það ánægjulega er að ef ekki hefði verið fyrir þessa keppni hefðum við sjálfsagt ekki komist í samstarf við Þoran svona fljótt. Sú staðreynd ein og sér styrkir mig í þeirri trú að ákvörðun Landsbankans og Matís um að efna til samkeppni af þessu tagi hafi verið hárrétt. Hún skapar okkur góða möguleika á að búa til vettvang sem orðið getur ríkur þáttur í aukinni verðmætasköpun á sviði matvælaframleiðslu og líftækni.“

IS