Brynhildur Ingvarsdóttir hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri Marinox ehf., framleiðanda UNA skincare húðvörulínunnar.
Brynhildur lauk MA-prófi í fjölmiðlafræði frá Emerson College í Boston 2002 og BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1995. Hún gegndi síðast starfi markaðsstjóra EGF hjá Sif Cosmetics þar sem hún tók þátt í uppbyggingu fyrirtækisins og vörumerkjanna EGF og BIOEFFECT™. Brynhildur var áður sviðsstjóri miðlunarsviðs Þjóðminjasafns Íslands í aðdraganda uppbyggingar og enduropnunar safnsins 1. september 2004. Hún er einn af höfundum grunnsýningar safnsins og stýrði miðlunarsviðinu á fyrstu árunum eftir opnunina.
Þegar Brynhildur var spurð út í nýja starfið sagði hún Marinox mjög áhugavert fyrirtæki með mikla möguleika á ýmsum sviðum. „Marinox er eitt af þessum spennandi nýsköpunarfyrirtækjum sem byggir á traustum rannsóknum og eldmóði stofnendanna. Rannsóknir þeirra hafa leitt í ljós að úr einni tegund af sjávarþörungum sem vex við Íslandsstrendur er hægt að vinna mjög lífvirk efni með mikla andoxunarvirkni, sem eru ekki bara eftirsótt sem hráefni í snyrtivörur, heldur einnig sem verðmæt fæðubótarefni og íblöndunarefni í matvæli svo eitthvað sé nefnt,“ segir Brynhildur.
Marinox ehf. er ungt nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í rannsóknum, þróun og framleiðslu á lífvirkum efnum úr sjávarþörungum og afurðum sem innihalda slík efni. Fyrsta vörulína fyrirtækisins, UNA skincare™ húðvörurnar, kom á markað fyrir rúmu ári. Rannsóknar- og þróunarvinna vörulínunnar fór fram í náinni samvinnu við Matís, bæði í Reykjavík og á Sauðárkróki. UNA skincare húðvörurnar innihalda einstök lífvirk efni sem unnin eru úr íslenskum sjávarþörungum en vísindamenn Marinox hafa þróað einstæða aðferð til að einangra og framleiða virk efni úr þessari vannýttu íslensku auðlind – aðferð sem tryggir hámarksvirkni efnanna. Vörumerkið UNA skincare™ er einungis hið fyrsta af mörgum sem eru í bígerð hjá Marinox enda tækifæri til sóknar á markaði fjölmörg.
Frekari upplýsingar veita Hörður G. Kristinsson, stjórnarmaður og stofnandi Marinox (858-5063) eða Brynhildur Ingvarsdóttir (860-9650).