Fréttir

Flugkassi með rakamottu betri en gámakassi með drengötum

Rannsóknir Matís hafa sýnt fram á að vel einangraðar pakkningar geta skipt sköpum fyrir hitastýringu í flutningi ferskfiskafurða og þar með hámörkun afurðagæða. Með tilliti til þessa hafa íslenskir útflytjendur ferskra hvítfiskafurða flestir notast við frauðkassa fyrir bæði flugflutning og sjóflutning í gámum.

Í gámaflutningi er ís gjarna komið fyrir ofan á flökum í frauðkössum með drengötum, sem þjóna þeim tilgangi að varna því að fiskurinn liggi í vökva í kassanum. Í flugflutningi eru frekar notaðar frosnar kælimottur en ís til kælingar í heilum (ógötuðum) kössum enda leyfa mörg flugfélög ekki notkun íss í ferskfiskpakkningum.

Megintilgangur tilraunar, sem fór fram í júní 2013, var að bera saman ofangreindar tvær pakkningalausnir, þ.e. gámakassa með götum annars vegar og ógataða flugkassa með rakamottu, m.t.t. gæðarýrnunar þorskhnakkastykkja við útflutning og dreifingu.

Borin var saman kæligeymsla á vörum pökkuðum (1) í 5-kg einingum í (H1) skipa- eða (H2) flugkössum; (2) í 3-kg einingum í (H3) flugkössum samanborið við H2; (3) með CO2-mottur (H4) til að draga úr örveruvexti í 5-kg einingum geymdum undir 93% vakúm í EPS kössum. Í öllum hópum var komið fyrir um 400 g af ís ofan á fiskinum og rakamottu með 600 mL rakadrægni undir fiskinum. Athyglisvert var að líftími afurða í gámakössunum (H1) var metinn hálfum til heilum degi styttri en líftími hinna hópanna. Ferskleikinn var mestur og líftíminn lengstur hjá H4, sem ber saman við hægari TVB-N/TMA myndun og örveruvöxt vegna CO2-myndunar og lægri vöruhita. Enginn marktækur munur var milli hópanna m.t.t. TVB-N og TMA gilda, sem voru hæst í H1 og H3.

Helstu niðurstöður tilraunarinnar má sjá í meðfylgjandi töflu og ágrip hennar er að finna hér: www.matis.is/media/matis/utgafa/21-13-Skyrsluagrip.pdf.


Meginniðurstaða tilraunarinnar er því að gæði þorskhnakkastykkja er ekki betur viðhaldið í götuðum gámakössum en ógötuðum flugkössum með rakamottu til að draga í sig bráðnaðan ís og drip úr fiskholdinu. Annar kostur við flugkassana er að þeir einangra betur viðkvæma kælivöruna frá umhverfishitaálagi, þó svo ekki hafi reynt á það í þessari tilraun.

Nánari upplýsingar veita Eyjólfur Reynisson (eyjolfur@matis.is) og Björn Margeirsson (bjorn.margeirsson@promens.com).

IS