Að gefnu tilefni skal upplýst að verkefnið Örugg matvæli, sem var hluti af IPA áætluninni, er mikilvægt til að tryggja enn frekar matvælaöryggi og vernda íslenska neytendur óháð inngöngu í ESB. Verkefnið gerir íslenskum yfirvöldum, Matvælastofnun (MAST) og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna (HES) betur kleift að framfylgja reglugerðum um matvælaöryggi og neytendavernd, en þær hafa nú þegar verið innleiddar á Íslandi í gegnum EES samninginn.
- Samkvæmt reglugerð er skylda að mæla að minnsta kosti 190 varnarefni í matvælum og krafist er getu um að mæla minnst 300 varnarefni.
- Í dag eru einungis mæld 63 varnarefni og því ekki vitað hvort önnur varnarefni séu til staðar í matvælum hér á landi.
- Sýni af náttúrulegum eiturefnum s.s. sveppaeiturefnum og sýni til mælinga á eiturefnum í skelfiski þarf í dag að greina erlendis.
- Árið 2011 mældust 8 af 276 eftirlitssýnum vegna varnarefna yfir leyfilegum mörkum, en árið 2012 mældust 3 af 275 eftirlitssýnum yfir leyfilegum mörkum. Það sem af er árinu hafa 5 af 140 eftirlitssýnum innihaldið varnarefni yfir leyfilegum mörkum.
- Nýjasta dæmið er að 6. ágúst 2013 var innflutt spínat innkallað af neytendamarkaði vegna varnarefnis sem greindist í vörunni og sem ekki er heimilt að nota við ræktun matjurta í Evrópu.
Bakgrunnur
Ísland hefur haft undanþágu til að greina færri varnarefni í matvælasýnum, en EES reglur gera kröfu um, á meðan unnið væri að úrbótum á efnagreiningum. Forsendur fyrir þessari undanþágu og nauðsynlegum úrbótum falla burt ef ekkert verður af framkvæmd verkefnisins „Örugg matvæli“, sem jafnframt nær til fleiri aðskotaefna og efnisþátta í matvælum. Eins og horfur eru í dag og ef íslensk stjórnvöld geta ekki brugðist við, er matvælaöryggi á Íslandi stefnt í hættu frekar en að vinna að nauðsynlegum úrbótum í samræmi við fyrirliggjandi áætlanir og skuldbindingar.
Neytendur verða að geta gengið að því vísu að matvæli hérlendis ógni ekki heilsu þeirra og ofangreint verkefni er liður í að tryggja það. Því tengist þetta verkefni fyrst og fremst því að framfylgja núgildandi reglugerðum sem snúa að bættu matvælaöryggi á Íslandi.
Það er grundvallaratriði fyrir neytendur að geta treyst því að sá matur sem þeir kaupa og neyta ógni ekki heilsu þeirra. Lykilmarkmið þessa verkefnis er að auka enn frekar matvælaöryggi á Íslandi og vernda neytendur með því að tryggja heilnæmi matvæla á íslenskum markaði. Verkefnið er því knýjandi til að Ísland geti staðið við allar þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist með samþykkt og framkvæmd matvælalöggjafar á EES.
Stuttur viðbragðstími er lykilatriði við uppákomur sem ógna matvælaöryggi. Ísland er landfræðilega einangrað og því þarf að tryggja að nauðsynleg rannsókna- og öryggisþjónusta sé ávallt til staðar í landinu. Í því skyni hefur MAST gert öryggis- og forgangsþjónustusamning við Matís um matvælaöryggi. Matís er opinber rannsóknastofa sem m.a. ber ábyrgð á að greina helstu sýkla og mengun í matvælum sem líklegt er að finnist á Íslandi en fyrirtækið veitir líka ráðgjöf um sýnatöku, greiningu á matvælasýnum og tekur þátt í áhættumati um matvælaöryggi.
Verkefnið Örugg matvæli var sett af stað til að vinna að uppbyggingu nauðsynlegs tækjabúnaðar til að greina varnarefni, aðskotaefni og önnur efni sem geta fundist í matvælum. Starfsfólk rannsóknaaðila og eftirlitsaðila á jafnframt að þjálfa í notkun búnaðar, löggjöf, sýnatökum og gæðamálum, sem tengjast matvælaeftirliti og matvælarannsóknum. Þetta eru verkefni sem í raun felast í núgildandi löggjöf, sem gerir kröfur um sýnatökur og greiningar, ásamt því að eftirlitsfólk fái nauðsynlega þjálfun og eftirlit byggist á áhættumati og skráðum verklagsreglum.
Upphaflega stóð til að fjármögnun verkefnisins kæmi í gegnum IPA styrk, en í ljósi þess að sá styrkur fæst að líkindum ekki, er nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld fjármagni verkefnið og vinni þá jafnvel að lausn þess með aðkomu erlendra samstarfsaðila MAST og Matís, sem eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum.
Nánari upplýsingar veita Ingibjörg Jónsdóttir hjá Matvælastofnun og Hrönn Ólína Jörundsdóttir hjá Matís.