Fréttir

Fölsuð vara – hvað er til ráða?

Að undanförnu hefur verið mikil umræða um matvælaöryggi og fölsun matvælaupplýsinga, þar sem neytendur hafa í vissum tilfellum verið hreinlega sviknir við kaup á neysluvörum. Ráðstefna um þessi mál verður haldin þriðjudaginn 16. apríl kl. 08:30-12:30.

Oft hefur verið unnt að rannsaka svikin með aðstoð rekjanleikaupplýsinga. Oft á tíðum hafa þetta verið mál þar sem aukið gegnsæi og virkur rekjanleiki í virðiskeðju matvæla hefðu getað komið í veg fyrir svindlið eða í það minnsta lágmarkað skaðann. Neytendur vilja skiljanlega vita hvaðan vara kemur sem þeir kaupa og neyta, hvort sem um er að ræða kjöt, fisk, páskaegg eða pylsur.

Næstkomandi þriðjudag stendur Vörustjórnunarfélag Íslands fyrir fróðlegri ráðstefnu um rekjanleika og matvælaöryggi í samvinnu við GS1 Ísland, Matís og Háskóla Íslands. Á ráðstefnunni verður leitað svara við því hvernig hægt er að bæta matvælaöryggi og koma í veg fyrir uppákomur líkar þeim sem verið hafa í umfjöllun undanfarin misseri. Fjallað verður um leiðir og lausnir til að tryggja rekjanleika matvæla og hvernig hægt er að koma upplýsingum til neytenda með nútíma tækni. Þrír erlendir sérfræðingar auk fjölda innlendra aðila sem starfa að þessum málum munu halda erindi.

Ráðstefnan verður haldin á Grand Hótel Reykjavík þriðjudaginn 16. apríl og mun standa yfir frá kl 8:30-12:30.

Hægt er að nálgast dagskrá og skrá sig á heimasíðunni www.logistics.is.

Viðtal við Svein Margeirsson, forstjóra Matís, um matvælaöryggi og rekjanleika í matvælaframleiðslu má finna á þessari slóð: www.ruv.is/neytendamal/eftirliti-med-matvaelum-abotavant

IS