Nýlokið er við að taka saman hagnýtar upplýsingar fyrir saltfiskframleiðendur. Þessi handbók byggir á rannsóknum og þróunarverkefnum sem unnin hafa verið á Matís í samvinnu við saltfiskframleiðendur undanfarin ár.
Fyrir allnokkrum árum tók Dr. Jónas Bjarnason, efnaverkfræðingur, saman handbók fyrir saltfiskframleiðendur. Sú bók naut mikilla vinsælda og þótti geyma mikinn og gagnlegan fróðleik. Upplag bókarinnar gekk til þurrðar fyrir nokkrum árum og hafa saltfiskframleiðendur óskað eftir nýju riti sem lýsti betur þeim aðferðum sem notaðar hafa verið á síðustu árum.
Rannsókna- og þróunarverkefni fyrir saltfiskframleiðendur hafa lengi verið fyrirferðamikil í starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og síðar Matís. Afrakstur þessara verkefna hefur verið birtur í allmörgum skýrslum og nú þótti tímabært að draga fram það helsta á einn stað.
Þessi handbók byggir því á rannsóknum margra einstaklinga og hæpið að telja þá alla upp, en þó ber að nefna að Sigurjón Arason, verkfræðingur hjá Matís og kennari við Háskóla Íslands, hefur verið nokkurs konar samnefnari margra þeirra, Dr. Kristín Anna Þórarinsdóttir, matvælafræðingur, vann við saltfiskrannsóknir um árabil og lauk doktorsprófi að rannsóknum loknum. Gerð þessarar handbókar og samantekt efnisins var að stórum hluta í höndum Kristínar Önnu áður en Páll Gunnar Pálsson, matvælafræðingur, tók við og sá um að koma handbókinni á þetta form. En handbókin verður aðeins fáanleg á rafrænu formi (pdf), sem gefur tækifæri til að bæta og breyta með litlum tilkostnaði.
Handbókina má nálgast á heimasíðu Matís (www.matis.is/saltfiskhandbokin)