Fréttir

Flotbryggjur festar tryggilega, án kafara, niður á allt að 100 metra dýpi

Fyrir stuttu afhenti Króli ehf Fjallabyggð formlega nýja flotbryggju í Innri Höfn á Siglufirði. Þetta er fyrsta flotbryggjan frá Króla ehf þar sem notast er við skrúfuakkeri sem Hafbor ehf hefur þróað, til að festa bryggjuna í sjávarbotninn. Um er að ræða samstarf Króla, Hafbors, Rannís og Matís.

Við það tækifæri var undirritaður samningur milli Hafbor ehf á Siglufirði og Króla í Garðabæ og tengdra aðila um markaðssetningu á tæknilausnum Hafbor fyrir aðila sem starfrækja eða setja upp hafnir, flotbryggjur og sambærileg mannvirki annars vegar og hinsvegar aðila sem starfrækja eða reisa vindorkuver á erlendum markaði.

KRÓLI ehf, sem er í eigu Kristjáns Óla Hjaltasonar, hefur undanfarin ár byggt upp sérhæfða þjónustu með steinsteyptar flotbryggjur og búnað fyrir íslenskar hafnir en með fyrstu bryggjunum voru einingar sem hafa þjónað Siglfirðingum vel yfir 20 ár. Flotbryggjurnar eru sænsk hönnun en fyrir 2 árum var undirritaður samningur við hönnuð eininganna að hefja framleiðslu hérlendis. Framleiðslan er í höndum Loftorku í Borgarnesi ehf en þar er í öllu farið eftir gæðakröfum SF Marina AB í Svíþjóð sem hefur verið í fremstu röð bryggjuframleiðanda á heimsvísu. Siglufjarðarhöfn er fyrsti kaupandi á steinsteyptum 12 metra fingrum sem er nýjung í viðlegu við flotbryggjur en fingurnir eru hentugir till viðlegu stórra yfirbyggðra báta sem kalla eftir auknu rými við bryggjur.

Hafbor ehf á Siglufirði sem er í eigu Erlings Jónsonar, Hilmars Erlingssonar og Gunnars Júlíussonar hefur undanfarin þrjú ár hannað, þróað og prófað búnað sem festir skrúfuakkeri í sjávarbotn með nýrri tækni í samstarfi við Matís, Rannís ofl. Tæknin gerir kleift að setja niður öflugar festingar í sjávarbotn án kafara á allt að 100 metra dýpi. Tæknin er miðuð að notkun fyrir kræklingarækt og fiskeldi á miklu dýpi en nýtist einnig við ýmsar aðrar aðstæður og notkun þar sem festa þarf hluti við sjávarbotn.

Samningurinn veitir Króla ehf leyfi til markaðssetningar á tæknilausnum Hafbor í gegnum alþjóðlegt tengslanet SF Marina AB og Seaflex AB en þessir aðilar hafa þegar lýst áhuga sínum og væntingum til hinns nýja búnaðar og er þess vænst að með samning þessum eflist innlend framleiðsla og þekking.

Hafbor ehf mun einbeita sér að markaðssetningu gagnvart fiskeldi af öllum gerðum og þess má geta að nú er samningagerð á lokastigi við KZO Seafarms og Catalina Seafarms í Californiu í um uppsetningu á fyrstu kræklinga og ostrurækt í Bandaríkjunumsem staðsett er utan 3. mílna fylkislögsögu, á alríkishafsvæði átta mílur frá Los Angeles. Stefnt að undirritun samninga á næstu vikum og að framkvæmdir hefjist í byrjun janúar 2013. Kræklingarækt KZO og Catalina Seafarms verður undir ströngu eftirliti vísindamanna næstu árin og miklar kröfur gerðar um allan búnað sem notaður er á svæðinu. Fyrsti áfangi felur í sér uppsetningu á 90 kræklingalínum á tveimur svæðum og ef leyfi fæst er stefnt að því að tífalda línufjölda á næstu fimm til sex árum.

Framkvæmdarstjóri Hafbor ehf er Ingvar Erlingsson og er fyrirtækið með aðsetur að Gránugötu 5 á Siglufirði.

Nánari upplýsingar hjá Matís veitir Gunnar Þórðarson stöðvarstjóri á Ísafirði.

IS