Fréttir

Rannsóknir með Kanada og Norðurlöndunum á þorsklirfum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Starfsmenn Matís eiga aðild að viðamiklu rannsóknaverkefni í samstarfi Norðurlandanna við Kanadamenn þar sem markmiðið er að auka gæði seiða sem framleidd eru í þorskeldi.

Verkefnið er styrkt af kanadískum aðilum og norræni hluti þess af NORA, Nordisk Atlantsamarbejde sjóðnum. Frá Íslandi vinna að verkefninu þau Rannveig Björnsdóttir hjá Matís og Háskólanum á Akureyri, auk Ragnars Jóhannssonar, Önnu Kristínar Daníelsdóttur og fleiri aðila hjá Matís, og Agnar Steinarsson hjá Hafrannsóknastofnuninni.

Miklar vonir eru bundnar við þorskeldi, bæði hér á landi sem og á öðrum Norðurlöndum og í Kanada. Hérlendis hefur Matís komið að rannsóknaverkefnum í þorskeldi með þeim aðilum sem eru að spreyta sig á þessari ungu grein og með því hefur byggst upp þekking á ýmsum þáttum eldisins innan Matís. Stór hluti þessara rannsókna hefur farið fram hjá Rannveigu Björnsdóttur í starfsstöð Matís á Akureyri. Rannveig og hennar hópur hafa lagt sérstaka áherslu á rannsóknir á fyrstu stigum eldisins, þ.e. lirfustiginu, þar sem hvað mest afföll verða.

Í COD-Atlantic verkefninu er lirfustigið einmitt sérstaklega til skoðunar. Markmiðið er að öðlast meiri skilning á því hvernig samsetning í fæðu hefur áhrif á vaxtarferli þorsklirfanna og heilbrigði þeirra. Leita með öðrum orðum svara við því hvaða fæðusamsetning skilar mestum lífslíkum lirfanna. Annar þáttur COD-Atlantic verkefnisins í heild er að auka vaxtarhraða þorsks í eldi með hagræðingu í fóðrun. Miklu skiptir fyrir þróun þorskeldis að ná tökum sem fyrst á stórum þáttum sem hafa áhrif á hagkvæmni eldisins. Rétt fóðrun og minni seiðadauði skipta þar umtalsverðu máli.

Nánari upplýsingar veitir Rannveig Björnsdóttir.

IS