Fréttir

Tilraunir gerðar með nýtt fóður fyrir eldisbleikju

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Fyrir stuttu hófst rannsóknaverkefni í samstarfi íslenskra, norska og sænskra aðila með nýja samsetningu á fóðri í bleikjueldi en segja má að undanfari þess sé þróun og rannsóknir Matís, Hólaskóla og innlendra bleikjuframleiðenda með nýja próteingjafa og hráefni í fóðri.

Jón Árnason, fóðurfræðingur og verkefnastjóri hjá Matís, mun stýra verkefninu. Hann segir að í ljósi þess að Ísland er stærsti bleikjuframleiðandi heims hafi Íslendingar leiðandi hlutverk í rannsóknum og þróun.

„Við höfum verið að skoða með eldisfyrirtækjunum próteinþarfir bleikju og hvort hægt sé að nota aðra próteingjafa en fiskimjöl í fóðrið og auka með því hagkvæmni í bleikjuframleiðslunni. Með norræna verkefninu munum við gera prófanir hjá fiskeldisbændum í öllum löndunum þremur og þá sjáum við árangurinn við mismunandi aðstæður. Í framhaldi af því ætlum við að skoða áhrif umhverfisþátta á bleikjueldið, meta vöxt og fóðurnýtingu út frá breyttu fóðri, fylgja áhrifunum eftir alla leið út á markaðina og skoða viðbrögðin hjá neytendum. Í ljósi þess að við erum að sækja þessa nýju próteingjafa til regnskóga Brasilíu og á sléttur Ameríku þá ætlum við líka að meta með öllum sem að bleikjueldi og sölumálum koma hvort þessi breyting á fóðri geti haft áhrif á þá ímynd sem bleikja hefur á mörkuðum sem hánorræn fisktegund. Lok verkefnisins verða þannig nokkurs konar matsfundur með öllum í virðiskeðju bleikjunnar,“ segir Jón.

Auk Matís og Hólaskóla koma að verkefninu tvær eldisstöðvar á Íslandi, norska fyrirtækið Polarfeed og ein norsk eldisstöð en í Svíþjóð taka þátt Sænski landbúnaðarháskólinn og ein eldisstöð. Verkefnið mun taka tvö ár.

Nánari upplýsingar veitir Jón Árnason.

IS