Fréttir

Hvert er magn aðskotaefna í mat sem er á borðum neytenda?

Þann fyrsta febrúar síðastliðinn hófst nýtt rannsóknarverkefni sem styrkt er að hluta til af 7. rannsóknaráætlun Evrópusambandsins.

Titill verkefnisins á ensku er „Total Diet Study Exposure“ sem útleggst á íslensku „Rannsókn á heildarneyslu aðskotaefna úr matvælum“. Matís stýrir einum verkþætti af 11 sem eru í verkefninu og tekur alls þátt í fimm verkþáttum

Í verkefninu verða þróaðar aðferðir til að meta hversu mikið fólk fær af óæskilegum aðskotaefnum úr matvælum eins og þau eru á borðum neytenda. Aðferðirnar verða síðan notaðar til að mæla hversu mikið fólk fær af völdum aðskotaefnum með fæðunni í nokkrum Evrópulöndum, þar á meðal Íslandi.

Með þessu verkefni gefst frábært tækifæri fyrir samræmdar rannsóknir á neyslu aðskotaefna á Íslandi og í nokkrum öðrum Evrópulöndum. Hjá Matís eru stundaðar rannsóknir á aðskotaefnum og matvælaöryggi. Verkefnið verður mikilvægt til að efla þetta svið og stuðla að auknu matvælaöryggi á Íslandi. Markmið verkefnis er að gera samræmdar rannsóknir á neyslu óæskilegra aðskotaefna í matvælum í Evrópu.

Til þess að hægt sé að framkvæma samræmdar rannsóknir þarf að samræma aðferðir sem notaðar eru við sýnatöku matvæla, mælingar á aðskotaefnum í matvælum, gæðamat á gögnum o.s.frv. Ætlunin er að prófa mismunandi aðferðir sem notaðar hafa verið í Evrópu og skilgreina besta verklag við rannsóknirnar. Einnig verður tekið saman hvaða aðskotaefni og hvaða matvæli skipta mestu máli við mat á heildarneyslu óæskilegra efna í fæðu Evrópubúa, en slíkar upplýsingar eru lykilatriði til þess að hægt sé að gera áhættumat vegna neyslu þessara efna og meta áhrif þeirra á heilsu manna.

Rannsóknin á heildarneyslu aðskotaefna gerir okkur kleift að fá raunverulegt mat á því hversu útsett við erum fyrir óæskilegum aðskotaefnum s.s.þungmálmum, þrávirkum lífrænum efnum, sveppaeiturefnum og fleiri aðskotaefnum úr matvælum eins og við borðum þau þ.e.a.s. steikt, soðin grilluð, reykt, þurrkuð eða bökuð.

Lykilupplýsingar fyrir verkefnið:
Heildarverkefniskostnaður Matís: 631.169€ þar af ESB Styrkur: 497.997€
Heildarstyrkupphæð ESB verkefnisins: 5.967.951€
Fjöldi þátttakenda: 26 frá 18 mismunandi löndum

Nánari upplýsingar: Helga Gunnlaugsdóttir

IS