Kadmín hefur alltaf verið í náttúrunni en í mörgum löndum óttast menn að það berist í matvæli í auknum mæli sem mengun frá iðnaði og einnig vegna þess að margar tegundir tilbúins fosfatáburðar innihalda nokkurt kadmín
Skýringin er sú að fosfat til áburðarframleiðslu inniheldur mismikið kadmín frá náttúrunnar hendi. Á Norðurlöndunum hefur verið stefnt að því að draga sem mest úr losun kadmíns út í umhverfið. Notkun kadmíns í iðnaði hefur minnkað og sett hafa verið hámarksgildi fyrir kadmín í tilbúnum áburði. Nú fer fram umræða innan Evrópusambandsins um hámarksgildi fyrir kadmín í áburði. Skoðanir eru skiptar þar sem lönd Suður-Evrópu gera minni kröfur en Norðurlöndin.
Kadmín er einn af þeim þungmálmum sem mest eru eitraðir fyrir menn og dýr. Bilið milli þess magns af kadmíni sem er manninum skaðlaust og þess sem skaðar heilsu er ekki breitt. Langtímaáhrif of mikils kadmíns í fæðu geta verið nýrnaskemmdir. Á síðustu árum hefur komið í ljós að skemmdir geta komið fram vegna minna magns kadmíns en áður var talið (Alfvén o.fl. 1997).
Nánar um þetta efni hér.