Á vormánuðum gafst starfsmönnum Matís kostur á að skrifa undir samgöngusamning sem ætlunin er að stuðli að því að starfsfólk Matís noti vistvæna, hagkvæma og heilsusamlega ferðamáta á leið sinni til og frá vinnu.
Matís hvetur starfsfólk til að nýta sér vistvæna og heilsusamlega samgöngumáta til að ferðast til og frá vinnustað. Með vistvænum samgöngum er átt við allan ferðamáta annan en að ferðast til og frá vinnu í einkabílum, svo sem að ganga, hjóla eða ferðast með strætisvögnum.
Starfsfólk Matís, sem ferðast til og frá vinnu með vistvænum hætti að jafnaði í 60% tilvika (þrjá daga í viku), á rétt á samgöngustuðningi frá Matís frá undirritun samningsins. Matís greiðir fyrir kort í strætisvagna fyrir starfsfólk sem að jafnaði notar strætó í og úr vinnu. Matís greiðir mánaðarlegt andvirði strætisvagnakorts til starfsfólks í lok hvers mánaðar, sem að jafnaði hjólar eða gengur í og úr vinnu. Þess má geta að Matís greiðir leigubílakostnað í neyðartilvikum á vinnutíma, t.d. vegna veikinda barna, fyrir starfsmenn sem að jafnaði nota vistvænan samgöngumáta.
Matís leggur mikinn metnað í heilsueflingu starfsmanna með margvíslegum hætti, t.d. geta starfsmenn sótt um s.k. heilsuræktarstyrk tvisvar á ári til starfsmannafélags Matís, líkamsræktarherbergi er í höfuðstöðvum Matís og auk þess býður starfsmannafélagið upp á margvíslegar heilsutengdar uppákomur á hverju ári. Starfsmenn eru vel upplýstir um mikilvægi þess að hreyfa sig reglulega og í átakinu Hjólað í vinnuna 2011 lenti Matís í 3ja sæti í fjölda km.
Nýverið var auk þess gengið til samstarfs við Örninn um að hjólaverslunin verði starfsmönnum innan handar þegar kemur að því að velja hjól sem henta, hvort sem það er fyrir starfsmann Matís eða meðlimi úr fjölskyldu hans. Auk þess mun Örninn ávalt sjá til þess að starfsmenn geti keypt reiðhjól og hluti tengda hjólreiðum á besta verðinu.
Nánari upplýsingar veita Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís og Jón Haukur Arnarson, mannauðsstjóri Matís.