Matís verður með starfsmenn í sumar staðsetta í Stykkishólmi tilbúna til að aðstoða matvælaframleiðendur og aðila sem hafa hug á að reyna fyrir sér með framleiðslu og vöruþróun.
Matís hefur lagt mikla áherslu á það að vera í góðu sambandi við smáa og stóra matvælaframleiðendur um allt land og er þetta liður í því að byggja upp góð tengsl við matvælaframleiðendur í Stykkishólmi og nágrenni.
Matís er stærsta matvælarannsóknafyrirtæki landsins og hefur yfir að ráða starfsmönnum sem hafa víðtæka þekkingu á vinnslu og þróun matvæla og geta því aðstoðað hvern þann sem hefur hug á að reyna fyrir sér með nýja framleiðslu og vöruþróun. Hægt er að aðstoða við vinnslutilraunir og fyrstu framleiðslu en ekki verður sérstök aðstaða sett upp í Stykkishólmi að sinni heldur mun aðstaða Matís annars staðar verða nýtt eða aðstaða sem fyrir er hjá væntanlegum samstarfsaðilum.
Að mörgu er að hyggja þegar unnið er að vöruþróun eða ný framleiðsla er undirbúin og því mikilvægt að fara vel og vandlega yfir alla þætti allt frá aðstöðu til markaðar og nauðsynlegt að fá aðgang að góðri aðstoð sem starfsmenn Matís eru tilbúnir til að veita. Við munum leggja okkur fram um að veita alla þá aðstoð sem þörf er á til að hugmyndir að nýjum vörum verði að veruleika og erum við tilbúin til að vinna jafnt með einstaklingum sem eru að stíga sín fyrstu skref og þeim sem eru lengra komin með sínar hugmyndir.
Sérfræðingar Matís hafa unnið að mörgum verkefnum með smærri framleiðendum undanfarin ár og hefur orðið til mikilvæg þekking og reynsla innan fyrirtækisins við að ýta nýjum hugmyndum úr vör. Við munum að sjálfsögðu taka við öllum hugmyndum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og gæta fyllsta trúnaðar svo endilega hafðu samband ef þú lumar á vænlegri hugmynd og þarft á aðstoð færustu sérfræðinga að halda.
Stykkishólmsbær hefur útvegað okkur fyrirtaks aðstöðu í Egilshúsi Aðalgötu 3 og er stefnt að því að starfsfólk á vegum Matís dvelji þar í sumar.
Hægt er að hafa samband við Pál Gunnar Pálsson verkefnisstjóra verkefnisins með því að senda póst á netfangið pall.g.palsson@matis.is eða hringja í 422 5102 / 858 5102.