Fréttir

Lengra geymsluþol á forkældum ferskum þorskhnökkum með endurbættum frauðkassa

Í nýútkominni skýrslu Matís er fjallað um geymsluþolstilraun á forkældum, ferskum þorskhnökkum. 

Tilraunin fór fram í mars 2010 sem liður í Evrópuverkefninu Chill on (EU FP6-016333-2) og íslenska verkefninu Hermun kæliferla, sem styrkt er af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi, Tækniþróunarsjóði Rannís og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. 

Markmið tilraunanna var m.a. að rannsaka hve vel tvær tegundir frauðkassa verja þorskhnakkastykki fyrir dæmigerðu hitaálagi í flugflutningskeðju frá framleiðanda á norðanverðu Íslandi til kaupanda í Evrópu.  Notast var við hitamælingar, skynmat, efna- og örverumælingar til að bera frauðkassana saman  og  kanna mikilvægi staðsetningar flakabita innan kassa (horn og miðja).

Nýi frauðkassinn, sem hannaður var með FLUENT varmaflutningslíkani, reyndist betri en eldri kassinn með tilliti til varmaeinangrunar.  Hitaálagið á fyrsta degi tilraunarinnar olli því að hæsti vöruhiti í hornum hækkaði í 5.4 °C í eldri gerðinni en einungis í 4.5 °C í þeirri nýju. Munur milli hæsta vöruhita í miðjum og hornum kassa var um 2 til 3 °C. 

Með skynmati var sýnt fram á að geymsla í nýja frauðkassanum leiddi til tveggja til þriggja daga lengra ferskleikatímabils og eins til tveggja daga lengra geymsluþols m.v. geymslu í eldri frauðkassanum. 

Staðsetning innan kassa (horn og miðja) hafði ekki marktæk áhrif á niðurstöður skynmats og var einungis um lítinn mun að ræða milli staðsetninga í mælingum á TVB-N og TMA.

Promens Tempra ehf. (http://www.tempra.is) hefur þegar hafið framleiðslu á nýja frauðkassanum.   

Skýrsluna er að finna hér: http://www.matis.is/media/matis/utgafa/29-10-Effect-of-improved-design-of-wholesale.pdf

Nánari upplýsingar veitir Björn Margeirsson, vélaverkfræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands og Matís (bjornm@matis.is). 

IS