Fréttir

Matarsmiðja Matís á Höfn lykillinn að því að Hundahreysti varð að veruleika

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

„Sú aðstaða og ráðgjöf sem við fengum í matarsmiðju Matís á Höfn í Hornafirði var lykillinn að því að fyrirtækið varð að veruleika“.

Þetta segir Kristín Þorvaldsdóttir hjá fyrirtækinu Hundahreysti sem setti í byrjun apríl á síðasta ári á markað nýja gerð af fóðri fyrir hunda. Fóðrið er framleitt að sænskri fyrirmynd en í það er notað íslenskt hráefni. Fyrirtækið er í eigu Kristínar og eiginmanns hennar, Daníels V. Elíassonar, matartæknis en sjálf er Kristín viðskiptafræðingur að mennt.

Ferskfóðri fyrir hunda kynntust þau í Svíþjóð á sínum tíma og eftir að þau fluttu heim til Íslands hugðust þau flytja fóðrið inn en það var ekki heimilað þar sem um hrávöru er að ræða. Kristín starfar innan Hundaræktarfélags Íslands og ákvað að sameina áhugamálið og menntunina og stofna fyrirtæki um framleiðsluna. Þetta var hið örlagaríka haust 2008 og skyndilega brugðust allar forsendur um fjármögnun framleiðslunnar.

„Kostnaður við framleiðsluaðstöðu var erfiður hjalli fyrir svona lítið nýsköpunarfyrirtæki en í ársbyrjun 2009 var okkur bent á möguleika til að hefja framleiðsluna í matarsmiðju Matís á Höfn. Í stuttu máli fór það þannig að þangað fórum við, hófum tilraunir við að aðlaga Nordic fóðrið að íslenskum aðstæðum. Í kjölfarið hófum við framleiðsluna hjá Matís og komum okkur þar með af stað. Á Höfn fengum við alla aðstöðu sem við þurftum og ómetanlega ráðgjöf og hjálp starfsmanna Matís. Og 10 mánuðum eftir að við settum vöruna fyrst á markað erum við komin í 270 fermetra framleiðsluhúsnæði í Kópavogi,“ segir Kristín.

Hópur hundaeigenda var fenginn til að prófa framleiðsluna í byrjun og nær allir eru í viðskiptavinahópi Hundahreystis í dag. Framleiðslan er um 4 tonn á mánuði en í fóðrið er notað hrátt íslenskt kindakjöt, nautavambir og nautablóð. Engar aukaafurðir af dýrum eru notaðar aðrar en nautavambir. Þar að auki er svo bætt í kartöflutrefjum, hveitiklíði, kalki, steinefnum og vítamínum. Kjötið í fóðrinu er hrátt og þess vegna kallast það ferskfóður. Fóðrið er selt frosið og geymist í u.þ.b. ár í frysti. Nordic ferskfóður er heilfóður fyrir hunda og ekki er þörf á að gefa hundinum neina viðbót eða blanda við annað fóður.

„Sem betur fer létum við ekki efnahagshrunið stöðva okkur og mestu skipti að fá þá aðstoð sem við fengum hjá Matís,” segir Kristín í Hundahreysti.

Nánari upplýsingar má fá hjá Guðmundi H. Gunnarssyni fag- og stöðvarstjóra Matís á Höfn í Hornafirði, gudmundur.h.gunnarsson@matis.is og hjá Kristínu hjá Hundahreysti, 892-5292, www.hundahreysti.is.

IS