Á morgun, föstudaginn 27. ágúst, heldur starfsmaður Matís og mastersnemi við HÍ, Ásta Heiðrún E. Pétursdóttir, fyrirlestur um arsen í fiskimjöli.
Fyrirlesturinn ber heitið: Greining eitraðra og hættulausra efnaforma arsens í fiskimjöli (Determination of toxic and non-toxic arsenic species in fish meal).
Fyrirlesturinn fer fram í stofu158 í byggingu VR-II föstudaginn 27. ágúst kl. 12.30.
Abstrakt
Í lífríkinu er mikið til af arseni í lífrænum efnasamböndum sem og á ólífrænu formi og hafa fundist meira en 50 náttúruleg efnaform af arseni. Sjávarfang inniheldur frá náttúrunnar hendi háan styrk heildararsens. Stærsti hluti arsens í sjávarfangi er hins vegar bundið á lífrænu formi, svokallað arsenobetaníð, sem er talið hættulaust. Önnur form arsens í sjávarafurðum eru að jafnaði til staðar í lægri styrk, m.a. ólífrænt arsen (arsenít og arsenat) sem er eitrað. Í þessari ritgerð koma m.a. fram niðurstöður og tölfræðileg úrvinnsla á mælingum á heildarstyrk í yfir 100 sýnum af íslensku fiskimjöli. Meðal annars var skoðað hvort árstíðamunur á heildarstyrk arsens fyrirfyndist. Síðan var áhersla lögð á greiningu eitraðs ólífræns arsens og voru mismunandi aðferðir prófaðar og metnar. Áður birt alkalí-alkóhól úrhlutunaraðferð, til að greina ólífrænt arsen, var aðlöguð og sýnin mæld með HPLC búnaði tengdum við ICP-MS. Í ljós kom að arsenóbetaníð var í öllum tilfellum ríkjandi efnaform arsens. Ólífrænt arsen reyndist vera undir fjórum prósentum af heildarstyrk í tólf mismunandi fiskimjölssýnum. Alkalí-alkóhól úrhlutunaraðferðin gaf sannfærandi efri mörk á styrk ólífræns arsens. Þörfin fyrir frekar þróun efnagreiningaaðferða á þessu sviði er brýn.
Nánari upplýsingar veitir Ásta, asta.h.petursdottir@matis.is.